Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 327 er nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum á árinu 1988.
    Nefndin hefur rætt frv. og meiri hl. leggur til að það verði samþykkt með brtt. sem flutt er á sérstöku þskj. og ég mun gera grein fyrir hér á eftir. Rétt er að fram komi að í nefndinni var m.a. rætt um vanda skipasmíðaiðnaðarins. Á fund nefndarinnar komu Þórleifur Jónsson, framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna og Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, Björn Tryggvason, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Ingimundur Friðriksson frá Seðlabanka Íslands. Að gefnu tilefni vil ég segja eftirfarandi: Fram hefur komið í umræðum á Alþingi í þessari viku að iðnrh. léti nú í samráði við fjmrh. og sjútvrh. kanna möguleika á að undanþiggja erlendar lántökur vegna samkeppnisverkefna í skipasmíðaiðnaði þessu lántökugjaldi.
    Það væri hægt að flytja hér, herra forseti, um þetta býsna langt mál. Ég mun ekki gera það að þessu sinni. Þó tel ég rétt að fram komi að hér er upphaflega um að ræða gjald sem sett var á með brbl. þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar tók við völdum. Síðan var þetta gjald hækkað með lögum sem samþykkt voru á Alþingi í mars. Með þeirri breytingu sem er nú til umræðu er verið að framlengja þetta gjald og jafnframt slaka til þannig að undanþágur og ívilnanir eru meiri en áður var án þess að ég reki það í smáatriðum. Þetta eru efnisþættir málsins, þetta er forsaga málsins, þannig að hér er í rauninni um að ræða mál sem er ekki aðeins á ábyrgð stuðningsmanna núv. ríkisstjórnar heldur og þeirra sem studdu fyrrv. ríkisstjórn.
    Brtt. sem meiri hl. nefndarinnar leggur til er að við c-lið 1. gr. bætist nýr málsl. sem er svohljóðandi:
    ,,Sama á við um stofnlán til fyrirtækja sem hyggjast stunda endurvinnslu úrgangsefna til útflutnings eða sinna öðrum verkefnum á sviði umhverfisverndar.``
    Tillagan er sem sagt um að víkka enn þá undanþágu sem þarna er og skal þá beinlínis sagt berum orðum að hér er verið að hugsa um fyrirtæki sem t.d. hefðu það verkefni að safna gömlum bílhræjum og gera úr þeim málm til útflutnings sem væri ekki einungis þarfaverk heldur þjóðþrifamál og almennt þrifamál.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að orðlengja þetta frekar. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir.