Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi fyrir hönd Kvennalistans í fjh.- og viðskn. Ed. Eins og fram kemur á þeim nál. sem liggja frammi hér í deildinni kemur afstaða mín til þessa máls ekki fram. Í Nd. skrifaði fulltrúi Kvennalistans, hv. þingkona Kristín Halldórsdóttir, undir álit meiri hl. um að frv. verði samþykkt. Sú afstaða okkar hefur ekki breyst, en vegna þess hraða sem hér er á öllum málum þessar klukkustundirnar og að töluvert lá á að skila nál. tók ég þann kost að láta afstöðu minnar ekki getið þar eð ég þurfti að gaumgæfa aðeins betur brtt. þær sem hér hafa verið lagðar fram af hv. þm. Sjálfstfl. og Borgfl. Við nánari athugun þeirra brtt. sem þeir hafa borið fram erum við kvennalistakonur reiðubúnar að styðja þær.
    Það hefur verið töluvert fjallað um málefni og stöðu skipaiðnaðarins hér í þingsölum að undanförnu. Þingmenn hafa einn af öðrum lýst áhyggjum sínum af því að þessi mikilvæga atvinnugrein sé að hverfa úr landi. Þó fram komi í nál. meiri hl. að málefni skipaiðnaðarins séu í sérstakri athugun hjá hæstv. ráðherrum iðnaðar, fjármála og sjávarútvegs, þá er það í sjálfu sér aðeins yfirlýsing. Ég tel því vænlegra að samþykkja slíka brtt.
    Varðandi seinni brtt. tel ég einnig rétt, í ljósi þeirra miklu erfiðleika sem hafa komið í ljós hjá útflutningsfyrirtækjum á því ári sem nú er að líða, að þau sitji við sama borð, að þau fyrirtæki sem þegar hafa tekið lán njóti sömu kjara og þau sem taka munu lán á næsta ári.
    En ég vil einnig láta þess getið hér að Kvennalistinn hefur lagt fram þáltill. um endurvinnslu úrgangsefna. Við teljum þá atvinnugrein mjög mikilvæga og arðbæra þegar til lengri tíma er litið, ekki síst með tilliti til umhverfisverndar og því fagna ég auðvitað brtt. þeirri sem kom frá meiri hl. fjh.- og viðskn. varðandi endurvinnslufyrirtæki.