Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Vegna fsp. hv. 2. þm. Norðurl. e. um skatt á skuldbreytingarlán í sjávarútvegi þá er það rétt sem fram hefur komið hjá honum að ýmis fyrirtæki í útflutningsgreinum, ekki eingöngu í sjávarútvegi, hafa tekið erlend lán á árinu 1988 til skuldbreytinga og fjárhagslegrar endurskipulagningar og greitt af þeim skatt. Ég er alveg sammála honum um að það voru ekki efni til þess hjá flestum þessara útflutningsfyrirtækja að greiða þennan skatt. Skatturinn hafði verið lagður á og það er mjög óvenjulegt, ef það á sér þá nokkurt fordæmi, að þegar skattur hefur einu sinni verið lagður á þá sé honum breytt aftur í tímann og ég hef alls ekki gert ráð fyrir því að svo verði varðandi þau lán sem tekin eru á árinu 1988, enda er mjög erfitt að gera upp á milli fyrirtækja í þeim efnum. Því sannleikurinn er sá að það hafa flestöll atvinnufyrirtæki verið í miklum erfiðleikum á árinu 1988, ekki aðeins í útflutningsgreinum heldur á flestum sviðum atvinnulífsins og svo er enn.
    Hins vegar er það alveg ljóst að það verður ekki innheimtur skattur að því er varðar sérstakar aðgerðir í þessum málum eins og fram kemur í frv. Og ég tel það vera alveg ljóst að skattur verður ekki lagður á þessi fyrirtæki vegna skuldbreytinga á árinu 1989. En ég sé heldur ekki, jafnvel þótt þessi brtt. hv. þm. yrði samþykkt, að það mundi nokkru breyta að því er varðar árið 1988, því hér stendur ,,lán sem tekin hafa verið eftir gildistöku laga þessara eða tekin verða vegna skuldbreytinga fyrirtækja í útflutningsgreinum``. Þessi brtt. varðar ekki árið 1988. Þessi brtt. varðar árið 1989, því væntanlega verða þessi lög samþykkt svo seint á árinu 1988, að ekki komi til þess.
    Þetta vildi ég nú segja í sambandi við fsp. hv. þm. og vænti að ég hafi skilið spurningu hans rétt, en hann mun þá leiðrétta það ef svo er ekki.