Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég vil óska eftir því að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræðuna. (Gripið fram í.) --- Nóg er nóttin, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það er ástæðulaust að draga neina fjöður yfir það að ég tel óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur þessa umræðu vegna ummæla sem fallið hafa við 2. umr. og til þess að skýra málið. Og ég sé ekki annað, ef hæstv. fjmrh. er upptekinn í Nd., en að óhjákvæmilegt sé að fresta fundi. Það er, held ég, einsdæmi í þingsögunni að tveir ráðherrar greiði atkvæði á móti því að fella skatta af atvinnugrein sem þeir hafa sannfært stuðningsmenn sína um að þeir vilji ekki að borgi skattinn. Mér skildist á hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefáni Guðmundssyni að hann greiddi atkvæði á móti því að aflétta lántökuskatti af skipasmíðaiðnaðinum af því að hæstv. iðnrh. og hæstv. sjútvrh. vildu alls ekki hafa þennan skatt á skipasmíðaiðnaðinum.
    Venjan er nú sú ef maður vill ekki hafa skatt á einhverjum iðnaði, vill ekki að fyrirtæki beri skatt, að greiða þá atkvæði með því að aflétta skattinum af fyrirtækjunum. Nú er annar siður upp tekinn. Þetta er svona eins og maður sé að lesa öfugmælavísur sem manni voru gefnar í barnæsku. ( Forseti: Ég mun þá verða við beiðni hv. þm. og fresta þessari umræðu og fresta fundinum í 5 mínútur.) Og fresta ræðunni. ( Forseti: Já.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Ég þakka fyrir það að fundi var frestað svo að hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur þessa umræðu. Þannig standa sakir að við 2. umr. lögðu þm. Sjálfstfl. og Borgfl. í fjh.- og viðskn. fram brtt. við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum þess efnis svo að ég hafi orðrétt eftir, þ.e. undanþáguliðurinn við 19. gr.:
    ,,Lán sem tekin hafa verið frá og með 10. mars 1988 eða tekin verða vegna smíði, endurbóta eða viðhalds á fiskiskipum, enda sé verkið unnið hér á landi.``
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson greiddi atkvæði gegn þessari tillögu á þeim forsendum að hann hefði átt samtöl við hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh. og þeir hefðu báðir fullvissað sig um að þeir vildu vinna að því að lántökugjaldið félli ekki á erlend lán sem tekin væru vegna viðgerða, endurbóta eða smíða á fiskiskipum hjá íslenskum skipasmíðastöðvum. Ég skildi ummæli hv. þm. þannig að þessum tveim ráðherrum hefði ekki tekist að sannfæra fjmrh. um nauðsyn þess að lántökugjaldinu væri létt af íslenska skipasmíðaiðnaðinum og vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. hvort honum sé kunnugt um þetta samkomulag og ef svo er, hvort hann sé þá samþykkur meðráðherrum sínum, hæstv. iðnrh. og hæstv. sjútvrh., um það að lántökugjald skuli ekki verða tekið af verkefnum íslenskra skipasmíðastöðva. Ég tel einsýnt, herra forseti, ef í ljós kemur að allir ráðherrarnir þrír vilji ekki að skatturinn komi á skipasmíðastöðvarnar, að það verði þá látið reyna á það til þrautar hvort deildin vill samþykkja það við 3. umr. Ef hins vegar kemur í ljós að hæstv. fjmrh. er

þarna andvígur sínum meðráðherrum, ef hæstv. fjmrh. vill halda til streitu lántökugjaldinu vegna verkefna innlendu skipasmíðastöðvanna, þá er það auðvitað líka upplýsandi um samkomulagið í ríkisstjórninni.