Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að vandi íslenska skipasmíðaiðnaðarins er mikill og eins og fram hefur komið fyrr á þessu þingi er það ætlun ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. iðnrh. að taka það mál til rækilegrar athugunar og leggja drög að því að um skipulega uppbyggingu, a.m.k. áframhaldandi starfsemi íslenska skipasmíðaiðnaðarins verði að ræða. Í þeim efnum kemur margt til álita og skoðunar, þar á meðal sú tegund af gjaldi sem hér er til umræðu.
    Hv. þm. Eiður Guðnason, formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar, kynnti mér þau sjónarmið sem uppi voru í nefndinni varðandi þetta atriði og það var um það samkomulag við mig að þetta yrði tekið til skoðunar fljótlega á næsta ári. Það hefur hins vegar ekki verið tekin ákvörðun í þeim efnum. Málið er ekki það einfalt að hægt sé að taka ákvörðun um það án þess að skoða það í samhengi við annað þannig að innra samræmi ríki í þeim reglum sem settar verða. Það mál verður einnig rætt við hæstv. ráðherra iðnaðarmála og sjávarútvegsmála og sameiginleg niðurstaða mun nást í því máli þegar gefist hefur nægilegur tími til að skoða það.