Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það að leggja 6% lántökugjald á lán sem tekin eru vegna smíði, viðgerða eða endurbóta á fiskiskipum hér á landi þýðir 6% afföll. Það þýðir 6% afföll. Ëf útgerðarmenn eiga það víst að lántökugjaldið verði fellt af skipasmíðaiðnaðinum, kannski í febrúar, kannski í mars, kannski í apríl, kannski í maí, kannski í júní, hlýtur það óhjákvæmilega að valda því að þeir dragi á langinn að setja skip sín í slipp, reyni að draga það í lengstu lög að skipin fari til viðgerðar þannig að með því að hafna tillögunni nú eftir þau ummæli sem einstakir ráðherrar hafa látið falla, sem eru í stuttu máli svona: Við erum svo önnum kafnir við það að leggja nýja skatta á, ríkisstjórnin að koma nýju sköttunum í gegnum þingið, að við megum ekkert vera að því að hugsa um skipasmíðaiðnaðinn fyrr en seinna. Það skiptir engu máli þó að við vitum það að hundruð manna séu atvinnulaus í skipasmíðaiðnaði. Ráðherrarnir brosa. Það er alvara þeirra í þessu máli. Og hv. þm., sem talaði um það í sameinuðu þingi að hundruð manna væru atvinnulaus í skipasmíðaiðnaði, virðist vera svo geðlaus að hann ætli að láta þetta yfir sig ganga.
    Ég hef oft og tíðum orðið var við það hér á Alþingi að menn hafi verið skeytingarlausir um atvinnurekstur, talað um hann af léttúð, látið sig litlu skipta hagsmuni slíkra greina. Ég hlýt þó að segja, og skammast mín ekki fyrir að leggja áherslu á það, ég hlýt að segja það sem þingmaður Akureyrar að afgreiðsla af þessu tagi er með öllu óþolandi, ólíðandi, bein ögrun við þau byggðarlög sem eru háð þessum viðskiptum, móðgun við þá menn sem vinna við skipasmíðaiðnaðinn og auðvitað ekkert annað en kæruleysi að haga sér með þessum hætti.
    Ég vil láta reyna á það til þrautar, herra forseti, hvort ekki sé hægt að fá ráðherrana til að taka afstöðu hér í þinginu í kvöld og mun þess vegna bera fram brtt. nú við 3. umr. Ég hef ekki haft svigrúm til þess að ræða við meðflutningsmenn mína að brtt. við 2. umr. og af þeim sökum tel ég því rétt að ég sé einn flm. að till., en hún mun hljóða svo:
    ,,Við 1. gr. bætist nýr stafliður, d, svohljóðandi:
    Lán sem tekin verða vegna smíði, endurbóta eða viðhalds á fiskiskipum, enda sé verkið unnið hér á landi.``
    Ráðherrarnir eru að tala um það að þeir vilji gera þetta seinna. Þeir eru að tala um að þá skorti undirbúning. Það er alveg óþarfi að fara upp í ráðuneyti og láta skrifa þetta fyrir sig þar. Það er vel hægt að skrifa svona texta niður hér niðri í Alþingi. Ef menn vilja ekki skattinn þá eiga menn ekki að greiða atkvæði með honum. Og ég vil brýna þá menn hér í deildinni, sem bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér, bera einhverja virðingu fyrir þeim mönnum sem hafa verið að byggja upp íslenskan skipasmíðaiðnað, að draga þetta mál ekki lengur heldur segja já hér við umræðurnar á eftir, afnema lántökugjaldið af skipasmíðaiðnaðinum fyrst ráðherrar þriggja stjórnmálaflokka hafa hér í deildinni lýst sig

samþykka því að það verði gert, annaðhvort með þögninni eða þá með beinum yfirlýsingum.
    Ég get að sjálfsögðu ekki dregið hér inn í deildina fjórða hjólið undir vagni ríkisstjórnarinnar, formann flokks jafnréttis og félagshyggju, Stefán Valgeirsson, en ég þarf ekki að spyrja hann að því hvar hugur hans er í málinu. Hann skilur það auðvitað jafn vel og við aðrir Norðlendingar hvað er í húfi, að fyrirtæki t.d. á borð við Slippstöðina á Akureyri, fyrirtæki á borð við Þorgeir og Ellert á Akranesi þurfi ekki að draga á eftir sér þetta lántökugjald.
    Ég vil biðja herra forseta um að leita afbrigða til þess að þessi brtt. geti komið fyrir.