Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Eins og fram kom við atkvæðagreiðsluna hér áðan stendur hugur iðnrh. og sjútvrh. til þess að þeir sem eiga viðskipti sín við íslenskar skipasmíðastöðvar þurfi ekki að greiða 6% lántökugjald af erlendum lánum sem tekin eru af þeim sökum. Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að hann sé sömu skoðunar og hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh. Öll þrenningin vill m.ö.o. endilega aflétta lántökugjaldinu af skipasmíðaiðnaðinum. Nú þætti mér það huggulegt ef einhver af stjórnarþingmönnunum mundi nú létta áhyggjum af ráðherrunum, úr því að þeir geta ekki bjargað sér sjálfir, og sagt já við þessari tillögu því að þá mun það undir eins gerast að skipasmíðaiðnaðurinn þarf ekki að greiða 6% lántökugjaldið. Ég segi já, herra forseti.