Stofnlánadeild landbúnaðarins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég er þakklátur forseta að gefa mér kost á að mæla fyrir þessu frv. mitt í önnunum, en svo háttar til eins og öllum hv. þingdeildarmönnum mun vera kunnugt að sú atvinnugrein sem er vikið að í frv., fiskeldið, á við nokkuð brýnan vanda að glíma þar sem vegna mikils og örs vaxtar í greininni skortir verulega á að rekstrar- og afurðalánafyrirgreiðsla sé með þeim hætti að unnt sé að tryggja örugga og áframhaldandi starfsemi fiskeldisins. Það hefur því undanfarnar vikur verið leitað leiða til þess að unnt væri að hækka afurða- og rekstrarlánahlutfall í fiskeldi þannig að það gæti numið allt að 75% af verðmæti birgðanna eins og gerist í öðrum sambærilegum útflutningsgreinum. Þó er sá munur á að í fiskeldinu er áhættan meiri og því þurfa að koma til sérstakar baktryggingar ef lánastofnanir eiga að treysta sér til að veita afurða- og rekstrarlán upp í þetta hlutfall.
    Sú niðurstaða sem liggur fyrir í frumvarpsformi er að í tengslum við Stofnlánadeild landbúnaðarins verði settur á fót sérstakur sjóður er nefnist Tryggingasjóður fiskeldislána og verði um hann fjallað í sérstökum kafla laganna um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þessi tryggingasjóður skal hafa það hlutverk að tryggja greiðslur á afurðalánum sem bankar og aðrar lánastofnanir veita eða útvega innlendum fiskeldisfyrirtækjum þannig að þessi lán geti numið allt að 75% af verðmæti birgðanna ef svo ber undir.
    Það er tekið fram í 1. gr. laganna að slíkar greiðslutryggingar skuli því aðeins veittar að viðkomandi fyrirtæki hafi fyrir tryggt afurðir sínar með svonefndri umframskaðatryggingu eða hliðstæðri tryggingu er nemi a.m.k. 50% af tryggingaverðmætum afurða og að fyrirtæki fái viðskipti við lánastofnun í eðlilegu hlutfalli við þær tryggingar og að þessi hluti afurðalánsins verði á undan greiðslutryggingu sjóðsins.
    Síðan er vikið að því að landbrh. sé heimilt að víkja frá þessum ákvæðum við ákvörðun reglna fyrir hafbeit, sem er nokkuð sérstakur hluti af þessari starfsemi, að fengnum tillögum nefndar sem gert er ráð fyrir að sett verði á fót.
    2. gr. lýtur að því að hámarksskuldbindingar sjóðsins á hverjum tíma megi nema samtals allt að 1800 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Rétt er að taka fram að fyrirvari er hafður á þessari tölu og rétt er að sú hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar láti meta sérstaklega hvort þörf er á svo hárri tölu eða hvort eftir nánari athugun komast megi af með eitthvað lægri hámarksfjárhæð hvað þetta snertir.
    Í c-lið 1. gr. er vikið að því að landbrh. skuli skipa sérstaka nefnd sem ákveði skilyrði fyrir veitingu greiðslutrygginganna og sú nefnd á að fjalla um hverja einstaka umsókn og ákveða á hvaða kjörum sjóðurinn veitir greiðslutryggingar hverju sinni. Þeir sem tilnefna eiga fulltrúa í þessa nefnd skulu vera einn frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva, sá þriðji samkvæmt tilnefningu fjmrh.

og sá fjórði samkvæmt tilnefningu landbrh. og verði hann jafnframt formaður nefndarinnar. Það er þessi nefnd sem samkvæmt a-lið skal hafa með höndum stjórn Tryggingasjóðs fiskeldislána.
    Þá er í b-lið vikið að því að ákvarða skuli hið árlega iðgjald sem tekið er fyrir greiðslutrygginguna og miðað við það að sjóðurinn verði rekinn hallalaus. Komi til þess að sjóðurinn geti ekki tímabundið, hvorki með iðgjöldum sínum né varasjóði, staðið við skuldbindingar og reynist þá nauðsynlegt vegna stöðu sjóðsins að taka lán skal veita sérstakar ríkisábyrgðir fyrir slíkum lánum og verði þær ríkisábyrgðir óháðar þeim sem að öðru leyti standa á bak við starfsemi Stofnlánadeildar landbúnaðarins, sbr. 11. gr. laga þar um.
    Enn fremur er vikið að því í d-lið að verði höfuðstóll tryggingasjóðsins neikvæður í árslok 1993, en það er það ártal sem miðað er við að lögin skuli hafa komið til endurskoðunar fyrir, sé heimilt að leggja tímabundið gjald á söluverðmæti fiskeldisfyrirtækjanna í allt að fimm ár frá þeim tíma og það gjald þá miðast við að jafna fjárhag sjóðsins. Þetta þýðir að það er ætlunin að fiskeldisgreinin sem slík beri uppi kostnað af starfsemi sjóðsins þegar til lengri tíma er litið svo fremi sem sú grein vaxi upp og verði að arðvænlegum atvinnuvegi í landinu og sú áhætta sem tekin er af starfsemi sjóðsins er í raun fyrst og fremst áhætta sem tekin er með atvinnugreininni sem slíkri í heild sinni.
    Svo er vikið að því í e-lið að landbrh. skuli setja samkvæmt tillögum nefndar reglugerðir með nánari ákvæðum um framkvæmd þessa kafla, þ.e. kaflans í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins sem fjallar um tryggingasjóðinn. Þar skuli kveðið á um efni og eðli trygginganna, hversu hátt hlutfall afurðalána er tryggt, röð ábyrgða, rekstur sjóðsins, þóknun fyrir umsjón hans og nánari reglur, m.a. um álagningu og innheimtu gjaldsins samkvæmt d-lið.
    Í 2. gr., herra forseti, er lagt til að lög þessi öðlist þegar gildi og skuli endurskoðuð fyrir árslok 1993.
    Ég þarf ekki að hafa þessi orð öllu fleiri, herra forseti, en vil leggja á
það sérstaka áherslu að hér er á ferðinni mál sem mjög brýnt er að fái skjótan framgang þar sem vandi fiskeldisfyrirtækjanna er þegar ærinn og fer vaxandi með hverjum deginum sem líður, helgast fyrst og fremst af því að þegar markaðir fyrir seiði lokuðust mjög óvænt á sl. sumri var tekin sú ákvörðun að setja þau á hér innan lands og reyna að láta þau vaxa upp og verða að útflutningsverðmætum. Þetta kallaði á mikla fjárfestingu og mikla og skyndilega aukningu rekstrarfjár í atvinnugreininni sem nauðsynlegt er að tryggja að fyrir hendi verði með einhverjum hætti.
    Það mætti út af fyrir sig ræða hvar eðlilegast væri að koma fyrir starfsemi af þessu tagi og getur sýnst sitt hverjum þar um, en hér er sem sagt lögð til ákveðin leið sem eftir talsverða skoðun hefur orðið fyrir valinu og ég held að sé með tilliti til allra aðstæðna eðlileg.
    Ég vil leggja sérstaka áherslu á að sú starfsemi

sem hér er lagt til að verði rekin í tengslum við Stofnlánadeild landbúnaðarins verður óháð annarri starfsemi deildarinnar og undir sérstakri stjórn. Það er ekki gert ráð fyrir því að eigið fé stofnlánadeildarinnar eða eignastaða deildarinnar eins og hún er vegna almennrar starfsemi standi á nokkurn hátt bak við þá áhættu sem af starfsemi Tryggingasjóðs fiskeldislána er. Þetta verður að kallast eðlileg ráðstöfun við þær aðstæður að hér er um tiltölulega óskylda starfsemi að ræða og að sú grein sem hér á í hlut, fiskeldið, hefur ekki greitt iðgjöld til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það hafa hins vegar greinar hefðbundins búskapar gert um langt árabil og þar með myndað það eigið fé sem nú er fyrir hendi í stofnlánadeildinni.
    Sá aðili sem hér stendur á bak við með ábyrgð er ríkissjóður, þó þannig að hann tekur, eins og ég áður sagði, fyrst og fremst áhættu með fiskeldisgreininni sem slíkri í heild sinni og þegar til lengri tíma er litið er gert ráð fyrir því að kostnaður af þessari starfsemi verði borinn uppi af fiskeldinu sem atvinnugrein.
    Það er svo enn fremur gert ráð fyrir því, eins og ég vék að, að lögin verði endurskoðuð fyrir lok ársins 1993 og er vikið að því í greinargerð að komi til þess fram að þeim tíma að mönnum sýnist hentugra að haga þessari starfsemi með öðrum hætti, svo sem að stofna sjálfstætt félag um þessa starfsemi, ábyrgðarfélag hagsmunaaðila eða annarra slíkra, þá verði að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að slíkur félagsskapur geti yfirtekið þá starfsemi sem þarna fer fram.
    Herra forseti. Ég legg svo til að þessu máli verði vísað til hv. landbn. deildarinnar að lokinni umræðu.