Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég held að við þurfum á milli funda að athuga þessi ákvæði betur. Það hefur verið vitnað til 41. gr. þingskapa þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Frumvörp, hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill.`` Síðan segir: ,,En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi.`` ( Landbrh.: Þegar umræðan er opin.) Ég þarf enga hjálp frá hæstv. landbrh. nema þá kannski í öðrum málum, en þá skal ég kalla eftir greiðanum og vona ég að hann verði goldinn.
    Þetta þýðir það samkvæmt orðanna hljóðan að ekki megi kalla aftur tillögu nema í umræðu, en auðvitað sjá allir þingmenn að það gengur ekki þannig. Skilningur þessara laga hlýtur að vera sá sami og í almennum fundasköpum að hver hv. þm. megi treysta því að fram komnar tillögur sem koma eiga til atkvæða séu settar fram í fullri alvöru og ef þær eru kallaðar aftur geti sérhver þingmaður gert þá tillögu að sinni.
    Tökum dæmi, virðulegur forseti. Hugsum okkur að hæstv. fjmrh. flytti tillögu og segði við mig: Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þessi tillaga verði ekki flutt því ég hef þegar flutt þessa tillögu. ( ÓÞÞ: Þetta er nú ekki trúlegt.) Það er alveg rétt hjá hv. þm. ef ég fæ frið til að klára dæmið. Síðan kemur að atkvæðagreiðslu og þá, sem kannski er öllu trúlegra, kallar hæstv. fjmrh. sína tillögu aftur og ég get ekki gert hana að minni. Þá sjá allir að hér er verið að rýra rétt þingmanna. Ég efast um, virðulegur forseti, að túlkun forseta sé rétt og skora á virðulegan forseta að kanna þetta mjög vel á milli funda. Í þessu tiltekna tilviki hefur þetta hins vegar ekki þýðingu þar sem ein umræða er eftir í málinu.