Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Nú kemur til umræðu annað veigamesta skattahækkunarfrv. hæstv. ríkisstjórnar, frv. um vörugjald. Það má því segja að þetta sé annar máttarstólpinn í tekjuöflun ríkisstjórnarinnar en hann er sama marki brenndur og hinn, þ.e. tekjuskattsfrv., að hér er verið að níðast á þeim sem síst skyldi og íþyngja íslenskum atvinnuvegum á afar erfiðum tímum.
    Ég vil gjarnan, virðulegi forseti, áður en ég held út í miklar efnislegar umræður, beina þeim tilmælum til forseta að hann kanni það --- ég skal ekki gera neitt hlé á máli mínu á meðan --- en ég beini því til hans að hann kanni það og kveði upp úrskurð um hvort þinglega hefur verið að meðferð þessa máls staðið.
    Þannig er að mál þetta tók mjög miklum breytingum í hv. fjh.- og viðskn., nánast gjörbreyttist í nefndinni, og það er spurning sem ég vildi beina til forseta hvort hér sé ekki verið að fara á svig við þingskapalög sem kveða á um að mál verði að fá þrjár umræður í hvorri deild. Ég tel að það sé fullkomið álitaefni að þetta nýja frv. um vörugjald --- sem var kastað hér inn í salinn í gær löngu eftir að formaður fjh.- og viðskn. ákvað að ljúka meðferð málsins --- ég tel mikið vafamál að hægt sé að segja að þetta sé sama málið og það sem upphaflega var flutt undir sama númeri hér í þinginu.
    Ég vil leyfa mér að vitna til hins merka rits Ólafs heitins Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands. Þar segir á bls. 293 í þeirri útgáfu sem ég hef í höndunum, með leyfi forseta:
    ,,Gerbreytingar á frumvarpi á síðari stigum meðferðar þess verður að telja óheimilar. Ef slík gerbreyting er leyfð verður hinum áskilda umræðufjölda ekki náð.`` --- Síðan bætir hann við, herra forseti: ,,Þessa hefur ekki ætíð verið gætt sem skyldi. Slíkum gerbreytingartillögum sýnist forseti eiga að vísa frá.``
    Það eru þessi tilvitnuðu ummæli sem ég vil biðja forseta að kanna hvort ekki sé verið að brjóta með þeim breytingum sem búið er að gera á þessu frv. Því tel ég að það sé fullkomið vafamál að um þetta mál eigi að fara fram þrjár umræður í þessari hv. deild. Mér sýnist stefnt í það að þær verði aðeins tvær og þrjár í hinni síðari. Þannig að ef forseti vildi kanna þetta þá kynni ég honum þakkir fyrir það.
    Hins vegar, virðulegi forseti, efnislega um þetta frv., þá er auðvitað það að segja að frv. þetta er hinn versti bastarður, bæði eins og það kom í upphaflegri mynd til hv. fjh.- og viðskn. og ekki síður eftir að það kom þaðan út í gjörbreyttu formi. Hér er um það að ræða að hverfa frá þeim meginsjónarmiðum í gjaldtöku og skattheimtu, óbeinum sköttum, sem Alþingi markaði stefnu um á síðasta þingi. Nú er meiningin á nýjan leik að taka upp tilviljanakennda gjaldtöku á hinum ýmsu vörutegundum allt eftir því hvað ráðamönnum sýnist í það og það skiptið. Hið nýja frv. sem kom út úr fjh.- og viðskn. er hins vegar skárra að því leyti að gjaldflokkum hefur verið fækkað en engu að síður er horfið frá því

meginsjónarmiði að eitt skuli yfir allar vörutegundir ganga, óháð því hvort þær eru í einhverri sérstakri náð hjá ráðamönnum eða ekki.
    Ég vakti athygli á því við 1. umr. þsssa máls að í A-flokki frv. væri verulegt ósamræmi ef það ætti að heita svo að þessi þáttur frv. væri ætlaður til þess að skattleggja sérstaklega sykurvörur. Það var vegna þess að í þessum kafla voru bæði ýmsar hollustuvörur og vökvar sem ekki verða kenndir við sætindi og einnig vantaði þar inn í, ef þetta átti að verða sykurskattur, fjölmargar vörutegundir sem innihalda sykur. Ný þykist hins vegar hv. fjh.- og viðskn. hafa fundið ráð við þessu sem er það að skattleggja sykurinn sjálfan og endurgreiða þá væntanlega þeim sem nota sykur í iðnframleiðslu þann kostnað sem þeir verða fyrir af þessum sökum, þó að ekkert hafi komið fram um það hvernig eigi að framkvæma þetta í innflutningi.
    Ég vek athygli á því að það kom ekkert fram um það í ræðu hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar hvernig ætti að innheimta þennan sykurtoll á innfluttum vörum. Á að mæla sykurmagnið í því sælgæti sem kemur til landsins, í þeim tertubotnum sem koma til landsins eða öðrum slíkum varningi eða á að láta þetta jafnt yfir alla ganga óháð sykurmagni? Og ef það er svo, en þannig blasir frv. nefnilega við, þá er ekki verið að tala um neinn sykurskatt, þá er bara aftur verið að tala um það sem hér var til umræðu þegar frv. kom fram í fyrstu, tilviljanakennda skattheimtu sem byggist ekki á neinu öðru en peningagræðgi Alþb. og viðleitni þess til að skattleggja allt og alla úr hófi fram.
    Fyrir nokkru síðan komu á fund fjh.- og viðskn. ýmsir aðilar sem hagsmuna eiga að gæta í þessum málum, þeirra á meðal fulltrúar framleiðenda hinna svokölluðu óhollustuvara og fulltrúar starfsfólksins, iðnverkafólksins, sem þarna á að sjálfsögðu verulegra hagsmuna að gæta. Í kjölfarið á þessum fundahöldum ákváðu þessir aðilar að beita sér fyrir sérstökum opnum fundi í Reykjavík með starfsfólki allra þeirra verksmiðja sem þetta mál snertir og þar voru saman komin mörg hundruð manns á fundi. Niðurstaða þess fundar og tilmæli þau sem þaðan bárust til þingsins voru afar eindregin. Þau tilmæli voru að
falla frá þessum áformum sem bitna á þessum verksmiðjum og starfsfólki þeirra nú við aðstæður sem hvort eð er einkennast af samdrætti, einkennast af minni framleiðslu, minni vinnu fyrir þetta fólk, meira atvinnuleysi og hugsanlega enn meira atvinnuleysi verði frv. samþykkt.
    Ég sé nú ekki betur en að meiri hlutinn í fjh.- og viðskn. og stjórnarflokkarnir ætli að hafa þessi tilmæli gersamlega að engu, enda kemur það heim og saman við aðra afstöðu þessarar hæstv. ríkisstjórnar til atvinnulífsins í landinu og þess fólks sem þar starfar. ( FrS: Er ekki rétt að hv. þm. spyrji hæstv. ráðherra að því hvort þetta breytist?) Já, ég mundi gjarnan vilja spyrja hæstv. ráðherra að því ef hann sæi einhverja ástæðu til þess að vera hér í salnum, en það er út af fyrir sig ágætis ábending og tilvalið að óska eftir nærveru hans. Hann hefur tamið sér það, þessi

virðulegi ráðherra, eins og reyndar kollegar hans að láta helst ekki sjá sig hér í deildinni þegar verið er að ræða mál sem að honum snúa. Mætti ég nú ekki óska eftir því að ráðherrann virðulegi léti sjá sig hér meðan verið er að fjalla um þessi mál?
    Ég mun geyma mér þessa spurningu þar til hann gengur í salinn ef hann þá getur hugsað sér að vera hér viðstaddur, en ég vil ítreka það sem ég hef sagt að hér er verið að vega að íslenskum atvinnuvegum, íslenskri framleiðslu, á tímum þegar kreppir að, atvinna fer minnkandi, uppsagnir eru meiri en áður og almenn eftirspurn eftir þessum vörum minni en verið hefur. Hafi það einhvern tíma verið ætlun manna að nota gjaldtöku sem þessa til að vinna bug á þenslu eru þau rök fallin um sjálf sig fyrir löngu síðan. Ef eitthvað er ætti frekar að lækka þessi gjöld, a.m.k. ef maður gagnályktar frá því sem menn hafa haldið fram um að þessi gjöld ættu að hækka á þenslutímum.
    Það er ekki bara sælgætis-, kex- og gosdrykkjaiðnaður sem ætlunin er að íþyngja með frv., heldur er nú sérstaklega lagst á ýmsar iðngreinar í tengslum við byggingarstarfsemi og smíðar ýmsar, starfsemi iðnaðarmanna af ýmsu tagi. Það hefur verið upplýst að með gjaldtöku þeirri sem hér er á ferðinni muni vísitöluhúsið kosta húsbyggjendur hvorki meira né minna en 200 þús. kr. í auknum byggingarkostnaði. Það er nú býsna fróðlegt, ekki síst fyrir hæstv. fjmrh. því ég er ekki í nokkrum vafa um það að hann hefur ekkert kynnt sér þessa hlið málsins og er auðvitað alveg nákvæmlega sama um hana. Það er hins vegar býsna fróðlegt sem fram kom í fjh.- og viðskn. að þessar álögur á byggingariðnaðinn í landinu munu kosta hvorki meira né minna en 200 þús. kr. til viðbótar fyrir vísitöluhúsið svokallaða, enda hækkar byggingarvísitala af völdum frv. um hvorki meira né minna en 3,2%, framfærsluvísitalan um 0,5% og lánskjaravísitalan þar af leiðandi um 1,3%, á að giska. Einhvern tíma hefði hæstv. núv. fjmrh. reiknað út hvað það þýddi í auknum vaxtakostnaði fyrir þá sem skulda í landinu miðað við heildarskuldir allra landsmanna. Hann hefur að vísu ekki séð ástæðu til þess að birta slíkar tölur með þessu frv., enda hefur hann tileinkað sér hæfileika kameljónsins í stjórnmálum og skiptir um málflutning, skoðanir og viðhorf eins og venjulegt fólk skiptir um fatnað.
    Ég var að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hverju hann hygðist svara þeim áskorunum og tilmælum sem bárust frá fundi starfsfólks í verksmiðjum hér á Reykjavíkursvæðinu í síðustu viku sem A-hluti frv. snertir sérstaklega. Þar er um að ræða milli 500 og 1000 manns sem í þessum iðnaði starfa og það má vel vera að það séu skilaboð hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar að þessi störf sem þar er að finna séu eitthvað ógöfugri en önnur framleiðslustörf á Íslandi. En þá er líka ágætt að það komi fram og menn segi það þá fullum fetum að starfskraftar þess fólks sem vinnur við þessa framleiðslu, hvort sem það er í gosdrykkjaverksmiðjum, kexverksmiðjum eða sælgætisverksmiðjum, séu miklu minna virði en

annarra og það eigi það skilið að störfum þar sé fækkað með skattlagningu af þessum toga. Því það er það sem blasir við í þessu efni, auk þess sem sérstaklega er verið að hlúa að erlendri samkeppni við þessar greinar, jafnvel þó að vörugjaldið leggist auðvitað bæði á innflutning og innlenda framleiðslu, vegna þess að hlutfallsleg hækkun beggja vörutegunda, innlendrar framleiðslu og innflutnings, eykur á það krónutölubil sem er á verði innlendrar og erlendrar framleiðslu. Þar af leiðandi verður samkeppnisstaða innlendu varanna lakari en áður var.
    Það er gegnumgangandi í frv. og engu líkara en það sé sérstök stefna að hygla innflutningnum á kostnað innlendrar framleiðslu. Ég hef sagt það í þessari ræðu áður að það sé þá í samræmi við aðra afstöðu þessarar ríkisstjórnar gagnvart atvinnulífinu, en ég held að hæstv. fjmrh. hljóti að fá sérstaka viðurkenningu frá innflutningsaðilum ýmsum, heildversluninni í landinu, ekki síst þeim sem versla með heimilistæki, fyrir að hafa í fyrsta lagi tilkynnt um þó nokkra verðhækkun á þessum vörum, þannig að fólki gæfist kostur á að hamstra, en síðan ákveðið að í stað þess að hækka vörurnar eigi að lækka þær, og það á sama tíma og verið er að hækka gjöld á alls kyns innlendum framleiðsluvörum.
    Á sama tíma og innlend framleiðsla hækkar í verði af völdum þessa gjalds gera menn sér lítið fyrir og lækka gjaldið á alls kyns innfluttum varningi. Ég
yrði ekkert hissa á því þó að hæstv. fjmrh. væri búinn að ávinna sér viðurkenningu hjá þeim sem starfa við innflutning fyrir þessa frammistöðu sína. Hann hefur nefnilega stórbætt samkeppnisstöðu innflutningsins gagnvart innlendri framleiðslu með beinum skattabreytingum, ef þessi frv. ná fram að ganga, til viðbótar við allt það sem hann hefur gert fyrir innflutningsaðilana og innflutninginn með þeirri gengisstefnu sem hann er aðalhvatamaður að og ver nú með kjafti og klóm við hvert einasta tækifæri. Hann á því sannarlega skilið heiðursviðurkenningu frá þeim sem starfa við innflutninginn. Með sama hætti á hann hins vegar skilið smán eina og skömm frá öllum þeim sem starfa í innlendri framleiðslu og bera hag íslenskra atvinnuvega fyrir brjósti.
    Forseti. Ég var að óska eftir því að hæstv. ráðherra gengi hér í salinn til þess að vera hér viðstaddur, en ekki til að sitja hér á kjaftatörn í öllum gluggasyllum og skúmaskotum og hypja sig síðan úr salnum. Mætti ég vinsamlegast óska eftir því að hæstv. ráðherra yrði kallaður hér inn aftur? Ég er hér að bera fram til hans ýmsar spurningar. Ef hann getur ekki hunskast til þess að sitja hér á meðan maður er að tala er ástæðulaust að halda áfram þessu máli. (Gripið fram í.) Ég er að tala um ráðherrann, forseti góður. Mér mundi aldrei detta í hug að tala svona um hæstv. forseta deildarinnar. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. hefur verið gert viðvart að hans nærveru sé óskað. Ég veit ekki hvort orðaval hv. ræðumanns virkar mjög hvetjandi á ráðherrann, en við skulum vona að hann birtist fljótlega.) Ég skal taka þetta orðaval til endurskoðunar, en ekki fyrr en hann verður við

þessum tilmælum.
    Herra forseti. Ýmsir þeir sem hafa komið á fund hv. fjh.- og viðskn. hafa skilað nefndarmönnum skriflegu áliti á því máli sem hér er til umræðu. Við hv. þm. Ingi Björn Albertsson og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sem stöndum sameiginlega að nál. um þetta mál höfum tekið þann kost að birta með okkar nál. ýmis þessi skjöl og meðan ráðherrann ekki er viðstaddur tel ég eðlilegt að lesa upp úr þessum pappírum, en það er kannski ástæðulaust fyrst hann er kominn hér í hv. deild. Það er hins vegar skemmst frá að segja, virðulegi forseti, að allir þeir hagsmunaaðilar sem leitað var álits hjá voru á einu máli um það hvílíkt óráð þetta frv. væri og hvílík árás þetta frv. væri á innlenda atvinnustarfsemi. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr fskj. V með okkar nál. þar sem er ályktun frá stjórn Sambands byggingamanna, en þar eru nú í forustu ýmsir samflokksmenn hæstv. ráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að flestar meginbyggingarefnavörur og húsgögn verði stórlega skattlagðar umfram það sem verið hefur. Slík skattlagning mundi tvímælalaust hafa í för með sér mikla verðhækkun, t.d. íbúðarhúsnæðis, sem er meðal brýnustu nauðsynja alls almennings, auk þess sem það væri almennt verðbólguvaldandi og samdráttar í húsgagnaframleiðslu.``
    Síðan segir áfram, virðulegur forseti:
    ,,Því mótmælir Samband byggingamanna mjög harðlega áður nefndum aðgerðum og fyrirætlunum stjórnvalda og bendir á að ef ríkisstjórn svokallaðra félagshyggjuafla finnur ekki aðrar leiðir til lausnar þeim rekstrarvanda atvinnufyrirtækja, sem nú er talið við að etja, en þær sem hér hafa verið nefndar, þá hljóti það að leiða til algers stríðs milli slíkrar ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar.``
    Hér er ekkert verið að skafa utan af hlutunum, virðulegi forseti. Hér er hins vegar vakin athygli á einum þætti þessa máls sem hefur kannski ekki verið mikið drepið á í umræðum um vörugjaldið, en því meira í umræðum um húsnæðismál hér í deildinni þegar frv. um það efni var hér til umræðu, en það er það að á sama tíma og talað er fagurlega um nauðsyn þess að koma til móts við húsbyggjendur í landinu er þeim stórlega íþyngt með þessu frv. Það kemur fram í þessu áliti Sambands byggingamanna og það kom fram í þeim tölum sem ég fór með hér áðan um að byggingarkostnaður á meðalíbúðarhúsnæði mundi hækka um 200 þús. kr. af völdum þessa frv.
    Landssamband iðnaðarmanna og Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda vöruðu sömuleiðis mjög alvarlega við þessari breytingu á gjaldtöku sem er yfirvofandi vegna þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka mun hafa á innlenda húsgagnasmíði, innréttingaframleiðslu og skylda starfsemi. Ég tel engan vafa á því að þessi starfsemi sem nú þegar á mjög undir högg að sækja gagnvart innflutningi mun fara mjög illa út úr þessari breytingu. En eflaust er hæstv. fjmrh. líka sama um það atriði eins og önnur

umkvörtunarefni sem bent hefur verið á í þessu máli.
    Í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. er birt yfirlit um markaðshlutdeild í húsgagnaframleiðslu sl. 10 ár. Á því yfirliti kemur fram að þróunin í þessum efnum hefur verið mjög neikvæð að því er varðar hlutdeild hinnar innlendu framleiðslu. Að einhverju leyti kann það að skýrast af því að á því tímabili sem myndin sýnir féllu endanlega niður aðflutningsgjöld í tengslum við aðlögun Íslands að EFTA-aðild. Hins vegar er ljóst að nú þegar markaðshlutdeild þessarar framleiðslu er komin ofan í 1 / 3 af markaðnum má þessi grein ekki
við frekari áföllum til þess að geta haldið velli. Frekari álögur í tengslum við þá gengisstefnu sem nú er fylgt geta ósköp einfaldlega þýtt rothögg fyrir þessa starfsemi eins og raunar ýmsar aðrar iðngreinar sem ekki njóta þeim mun meiri fjarlægðarverndar eða sérstakra aðstæðna hér á innanlandsmarkaðnum.
    Ég vakti athygli á því við 1. umr. um þetta mál að þenslan væri liðin og það væri rangt að taka upp ígildi fjárfestingarskatts, eins og hæstv. fjmrh. kallaði þetta vörugjald, við þær aðstæður þegar framleiðslan væri að skreppa saman. Hæstv. fjmrh. sá ekki ástæðu til þess að svara því, en engu að síður er það rétt að þegar við blasir samdráttur mega íslenskar iðnframleiðslugreinar ekki við nýjum álögum, hvort sem það er 9% vörugjald eða 14% á tilteknum greinum eins og til stóð í upphafi eða 25% eins og hugmyndin er varðandi ýmsan matvælaiðnað og ég hef þegar getið um.
    Ég hlýt hins vegar að lýsa alveg sérstakri furðu á því hvernig frv. hefur verið breytt í meðförum nefndarinnar, innlendum framleiðendum í óhag. Það er beinlínis verið að fella niður eða lækka gjöld á innflutningi á sama tíma og verið er að leggja ný gjöld á innlenda framleiðsluvöru. Þarna er auðvitað komin stefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn gagnvart íslensku atvinnulífi eins og margbent hefur verið á. Hins vegar skal það viðurkennt að það er ekkert allt of mikil hrifning meðal stjórnarliða af þessu máli og kom það glöggt fram við afgreiðslu málsins í fjh.- og viðskn. A.m.k. tveir nefndarmenn skrifuðu undir þetta með mjög svo hangandi hendi þó svo að tekist hafi að kúga þá til hlýðni á endanum í málinu, enda var alls ekkert orðið við öllum óskum nefndarmanna um upplýsingar. T.d. óskaði einn stjórnarliðinn og sömuleiðis stjórnarandstæðingar upplýsinga frá Bílgreinasambandinu um hvað það mundi þýða fyrir starfsemi aðila innan þess vébanda að leggja vörugjald á bílavarahluti. Þetta atriði var ekki í upphaflegu frv. en því var bætt inn í. Við þessu hafa ekki fengist nein svör.
    Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hver hann telji að vera muni áhrif vörugjalds á bílavarahluti, á innlenda starfsemi á þeim vettvangi, því þó að kannski viti það ekki allir eru þau verkstæði til sem framleiða varahluti eins og t.d. hljóðkúta og fleira þess háttar. Hefur verið kannað hver áhrif þessa vörugjalds verða á slíka starfsemi og ætla menn ekkert að taka tillit til þess að hér á Íslandi er veikburða starfsemi í

nokkrum greinum þessa þáttar eða á bara að keyra það allt á hausinn eins og svo margt annað þessa dagana?
    Mig langar að spyrja virðulegan forseta hvort sú könnun, sem ég í upphafi ræðu minnar bað um að fram færi, er hafin? ( Forseti: Því er til að svara að ég hef tekið niður ábendingu hv. ræðumanns og ég mun koma því á framfæri við aðalforseta þingdeildarinnar við fyrstu hentugleika og er sjálfsagt að það verði athugað. Það liggur hér fyrir.) Já, ég þakka forseta fyrir þetta og vænti þess að þetta verði upplýst. (Gripið fram í.) Hvaða könnun, spurði hæstv. fjmrh. því hann var ekki hér í upphafi og ég skal upplýsa hann um það hvað það er.
    Sú könnun sem ég hef óskað eftir að forseti beiti sér fyrir og úrskurði um er um það hvort meðferð þessa máls og framlagning brtt. sem jafnast í raun og veru á við nýtt frv. samrýmist þingskapalögum. Í þingskapalögum er kveðið á um þrjár umræður um hvert mál en ég tel að það sé fullkomið álitaefni hvort hér sé ekki verið að smeygja máli í gegnum aðeins tvær umræður í stað þriggja og bað forseta að kanna það mál. Raunar vitnaði ég til hins merka fræðirits Ólafs heitins Jóhannessonar um stjórnskipun Íslands þar sem segir að gerbreytingar á frv. á síðari stigum séu óheimilar. Hæstv. fjmrh. má ekkert vera að því að hlusta á þær skýringar sem hann bað um, en ég vona að hann hafi náð þessu. Þá sný ég mér að öðru.
    Þingmönnum hefur borist, virðulegur forseti, ályktun frá svonefndri skattanefnd atvinnuveganna vegna hinna fyrirhuguðu skattahækkana sem nú dynja yfir. Við hv. þm. Ingi Björn Albertsson munum birta þessa ályktun sem fylgiskjal með okkar áliti um frv. um tekju- og eignarskatt, en mig langar aðeins að fá að vitna í þessa ályktun, með leyfi forseta, vegna þess að þar eru atriði sem eiga erindi inn í þessa umræðu um vörugjald. Þar segir:
    ,,Áform um hækkun vörugjalds boða sömuleiðis fráhvarf frá þeirri stefnu sem verið hefur í skattamálum, að hafa skatta sem almennasta og veikja ekki um of samkeppnishæfni atvinnuveganna. Að svo miklu leyti sem hækkun vörugjaldsins er stefnt gegn innflutningi er beinlínis verið að falsa enn frekar gengi krónunnar. Með hækkun almennu vörugjaldsprósentunnar úr 14% í 20% er verið að mismuna enn frekar þeim vörutegundum sem þetta gjald fá á sig. Er þó í mörgum tilfellum um að ræða algengar heimilisvörur sem flokkast undir nauðsynjar á hverju nútímaheimili.`` Hér lýkur þessari tilvitnun, herra forseti, en það er nauðsynlegt að taka það fram að þessi hluti ályktunarinnar er saminn áður en frv. var breytt þannig að þessi þáttur, að því er varðar þessi heimilistæki, er orðinn úreltur, og það er breytt stefna hjá ríkisstjórninni varðandi heimilistækin. Hins vegar er fyrri hluti þessarar tilvitnunar fullkomlega réttmætur að því er varðar hin almennu atriði.
    Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Sérstöku 25% vörugjaldi á sælgæti og gosdrykki er fyrst og fremst stefnt gegn nokkrum einstökum fyrirtækjum og því fólki sem þar vinnur. Hollustu- og

manneldissjónarmiðum hefur verið haldið fram í þessu sambandi en þau rök eru haldlaus. Þessar vörur eru ekki nema lítill hluti af þeirri neyslu sem kallast getur óholl og sum hver nýtur jafnvel sérstakrar velvildar ríkisvaldsins.
    Ekki eru nein efnisleg rök sjáanleg fyrir því að ríkisvaldið fari með þessum hætti að skipta vörum í ,,góðar`` og ,,vondar`` vörur. Því ætti það sama að gilda um þessar vörur eins og aðrar og þær ætti ekki að skattleggja sérstaklega.
    Sérstakt 10% vörugjald á byggingarvörur er undrunarefni þegar húsbyggjendur þurfa á víðtækri aðstoð að halda. Það er enn fremur ljóst að þetta gjald mun hafa í för með sér mikinn samdrátt í byggingariðnaði einmitt þegar samdráttur í þessari atvinnugrein er að verða tilfinnanlegur af öðrum ástæðum.
    Hækkun vörugjalds veikir því enn atvinnugrundvöllinn og hætta er á að uppsagnir verði í kjölfar hækkunarinnar í byggingariðnaði, sælgætis- og gosdrykkjaiðnaði og í verslun. Nokkur hundruð störf gætu verið í hættu af þessum ástæðum.
    Þá liggur einnig fyrir að hækkun vörugjaldsins mun hafa í för með sér 0,5% hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar og 3--4% hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar. Lánskjaravísitalan hækkar þá í framhaldinu.``
    Allt ber hér að sama brunni, virðulegi forseti. Allir sem hafa tjáð sig um þetta mál leggjast eindregið gegn frv. við núverandi aðstæður. Ég vil undirstrika það að auðvitað er gjald eins og það sem nú er lagt á, 14%, engin sérstök heilög tala. Auðvitað gæti komið til greina að breyta því í aðra hvora áttina ef aðstæður væru þess efnis. Það hefði þá frekar komið til greina að hækka þetta gjald þegar þenslan var sem mest til þess að sporna gegn eftirspurn, ekki síst eftir innfluttum vörum. En það er rangt að farið, eins og ég hef margtekið fram, að hækka þetta gjald þegar svo er í pottinn búið í atvinnulífinu eins og nú standa sakir og þegar innlend framleiðsla á svo mjög undir högg að sækja eins og raun ber vitni.
    Ég hyggst ekki lengja mál mitt, herra forseti, ég tel að ég hafi komið að þeim meginsjónarmiðum sem ég vildi láta fram koma en ég vil enn ítreka mína fsp. til forseta og vænti þess að úr þessu fáist skorið áður en málið verður afgreitt hér í deildinni.