Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Þannig háttar til um 1. gr. þessa frv. að hún er ekki stefnumarkandi fyrir frv. í heild heldur fjallar hún um breytingar á ákveðnum viðmiðunartölum í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, um upphækkun slíkra viðmiðunartalna, þar sem ekki er gert ráð fyrir skattvísitölu í fjárlögum næsta árs. Sjálfstfl. styður þessar breytingar. Það hefur hins vegar ítrekað komið fram að hann er andvígur frv. í hinum stefnumótandi ákvæðum þess. Við munum styðja brtt. þær sem Kvennalistinn hefur flutt sem miða að því að breyta skipan tekjuskatts einstaklinga í það horf sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum til að tryggja að ef þetta frv. nær fram í heild sinni verði þau ákvæði þannig að þau skili því gagnvart almenningi sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Ég segi já við þessari grein, herra forseti.