Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að vera margorð um þetta mál. Ég hef þegar tjáð mig um það, bæði um efnisatriði og málsmeðferð. Við kvennalistakonur erum andvígar frv. þar sem það hækkar framfærslukostnað, það hækkar byggingarkostnað og það eykur verðbólgu um leið og launafólk er beitt valdi og fær ekki að semja um laun sín. En ég sé mig tilneydda til að gera athugasemd vegna atkvæðagreiðslu sem fram fór áðan við 2. umr. Ég hafði ætlað að gagnrýna hæstv. forseta, nú er ekki aðalforseti í forsetastóli, en ég hef þegar rætt við þann sem gegndi forsetastörfum áðan, vegna þess að tilhögun atkvæðagreiðslunnar ruglaði a.m.k. þá sem hér stendur í ríminu og mér tókst ekki að greiða atkvæði á þann veg sem ég ætlaði. Þar má um kenna ruglingslegum þingskjölum sem stafa af ruglingslegri málsmeðferð meiri hl. Hæstv. forseti lét greiða atkvæði um tvær fyrstu brtt. frá meiri hl. í einu, en ég áttaði mig hreinlega ekki á því og heldur ekki þeir sem í kringum mig voru fyrr en atkvæðagreiðslan hélt áfram. Þess vegna vildi ég nú nota tækifærið og lýsa því yfir að það var ætlun okkar kvennalistakvenna að greiða atkvæði með sumum atriðum í brtt. nr. 2 og ég hafði hugsað mér að fá þeim númerum skipt upp í hluta. Það er sjálfsagt að upplýsa þingheim um hvernig við höfðum hugsað okkur að greiða atkvæði því að þarna eru númer frá 1701.1100 til 1704.9009 en á bak við þau númer eru ýmsar sykurvörur og sætindi og við höfðum hugsað okkur að styðja þá hækkun. Við höfðum hins vegar hugsað okkur að greiða atkvæði gegn tveimur númerum sem hafa að geyma kakóduft án sykurs sem við sjáum ekki ástæðu til að hækka sérstaklega. Þar á eftir koma ýmis númer sem innibera súkkulaðinúggatmassa og sitt af hverju tagi í þeim dúr. Þá eru hér piparkökur og sætt kex. Það fellur undir þessa skilgreiningu einnig. En síðan koma allmörg númer sem hafa að geyma ávaxtaþykkni, ógerjaðan og ósykraðan safa, þ.e. númer frá 2009.1101 til 2201.1000, og við ætluðum að greiða atkvæði gegn sérstöku álagi á þessar vörur. Þar næst koma númer sem eiga við gos, öl og vínanda og fleira af því tagi og við ætluðum að styðja sérstakt álag á þær vörur.
    Við höfðum sem sagt farið nokkuð rækilega yfir þennan kafla og ætluðum á málefnalegan hátt að styðja þær álögur á þau númer sem við töldum vera í samræmi við manneldisstefnu. En þetta misfórst hjá okkur þar sem atkvæðagreiðslan var ekki á sama veg og við töldum að hún yrði.
    Þetta vildi ég skýra út svo það kæmi skýrt fram bæði gagnvart þingdeild og kæmi fram í þingtíðindum og þarf svo sem ekki frekari orð um það að hafa. En fyrst ég er komin hingað vil ég ítreka fyrirspurn sem ég gerði til hæstv. ráðherra við umræðuna áðan og hún er varðandi þetta númer sem ekki fyrirfinnst í tollskránni en meiri hl. vill endilega hafa með 9% vörugjaldi. Það er mér vitaskuld útlátalaust, en ég hygg að tekjur ríkisins aukist ekkert við það og mér finnst snyrtilegra að það sé í samræmi við tollskrána.

Þetta númer er 3926.3001. Ég bar fram fsp. um það áðan hvað lægi að baki þessu númeri, hvort þetta væri eitthvert sérnúmer hæstv. fjmrh., eitthvað sérstaklega hugnanlegt, en ég fann þetta ekki í tollskránni og því er þessi fyrirspurn fram borin.
    Ég vona að ég hafi þá hér með úskýrt hver afstaða Kvennalistans er í rauninni til þeirra liða sem hér var verið að afgreiða.