Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég bar fram nokkrar spurningar til hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað. Þær vörðuðu nokkra þá þætti sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur gert að umræðuefni og nokkra aðra þætti líka. Ein af þessum spurningum var beinlínis sú hvort það væri ekki áreiðanlega rétt skilið að sætuefni sem innihalda ekki sykur séu í þessum sama vörugjaldsflokki. Enn fremur kom ég með þá ábendingu að það væri æskilegt og að ýmsu leyti nauðsynlegt að þeir vöruflokkar væru teknir út úr þessu vegna heilsufarsnauðsynjar hóps fólks sem er algerlega háð fæðu sem er sykursnauð. Ég sé ekki betur en ríkisstjórnin hafi alveg skellt skolleyrum við þessu, en ég get ekki ímyndað mér að þetta muni svo afskaplega miklu í tekjuöfluninni. Hins vegar munar þetta mjög miklu fyrir þann hóp, sem er sem betur fer ekki mjög fjölmennur en of fjölmennur þó, sem er háður slíkum vörum. Þetta tel ég að sé alveg nauðsynlegt að leiðrétta. Hér er fyrst og fremst um að ræða sætuefnið aspartan sem ég hygg að sé enn þá inni í þessari grein og þarf endilega að fara þaðan.
    Annað atriði, sem ég get heldur ekki ímyndað mér að vegi afskaplega þungt í tekjuöflun ríkisins en hefur hins vegar mjög mikla þýðingu menningarlega, er það að nú virðist ríkisstjórnin hafa ákveðið að leggja vörugjald á efni til listmálunar. Ég bendi hæstv. ráðherra á það, ef hann mætti vera að að taka þeirri ábendingu, a.m.k. hafa hana í huga sér, að það var mikið framfaraspor þegar opinber gjöld af þessum efnum voru afnumin fyrir nokkrum árum og breytti stöðu myndlistarmanna mjög mikið. Það gerðist hvort tveggja í senn að við gerðumst aðilar að Flórens-sáttmálanum um niðurfellingu aðflutningsgjalda af slíkum efnum, efnum til framleiðslu menningarverðmæta m.a., efnum vegna menningar og vísinda, og svo hins vegar að ríkisstjórnin ákvað að ekki skyldi vera sérstakt vörugjald á efnum til listmálunar. Ég vek athygli á þessu og hvet eindregið til þess að þetta spor aftur á bak verði ekki stigið. Nóg er nú samt sem að skattafrv. ríkisstjórnarinnar má finna.
    Ég held að þau tvö atriði sem ég hef bent á séu í raun og veru afskaplega útlátalítil fyrir ríkisstjórnina að leiðrétta en hafi mikla þýðingu fyrir þá sem í hlut eiga.
    Það væru fjölmörg atriði, herra forseti, sem ástæða væri til að víkja að því að þetta frv. er eitt með öðru það sem sýnir hug þessarar hæstv. ríkisstjórnar til almennings í landinu. Nú vil ég ekki ætla henni að hún beri neina óvild í brjósti gagnvart almenningi í landinu heldur er hér um að ræða þvílík flaustursverk að þau bitna með óhóflegum þunga á þeim sem síst skyldi oft og tíðum. Það aftur á móti lætur hæstv. ríkisstjórn sér í léttu rúmi liggja þegar um er að ræða að halda völdum sínum annars vegar og hins vegar að geta sýnt fram á pappír þar sem menn telja, a.m.k. til bráðabirgða, að nokkurn veginn sé jafnvægi á milli tekna og gjalda í fjárlögum hvað sem það kostar, þó

að það hafi mikinn aukakostnað og erfiðleika í för með sér örskömmu seinna. Þetta er einungis vegna þess að þessari ríkisstjórn er margt helgara en kjör hinna einstöku þjóðfélagsborgara í landinu. Svipurinn á fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., þ.e. fjárlagafrv. Alþb., þarf að vera með þessum hætti hvað sem það kostar og undir það jarðarmen ganga bæði hæstv. forsrh. og hans flokksmenn, hæstv. viðskrh. og hans flokksmenn og svo nýju hásetarnir tveir sem væntanlega fá kannski ekki skiprúm á þessum bát fyrr en eftir áramótin. En svo er að sjá hér enn sem fyrr, áður en þessi frv. tóku þó þeim breytingum sem eru nú að verða á þeim, að það sé Alþb. sem ræður efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar, fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar allt til þess að hið sama Alþb. geti sýnt á pappír að fjárlagafrv. og hin endanlegu fjárlög eins og þau verða afgreidd sýni e.t.v. meira jafnvægi en er í raun og veru. Með þessum hætti gerist það einkennilega að sjálfur hæstv. forsrh. sem hér situr verður eiginlega í þjónustu Alþb., svo einkennilegt sem það er. Ég veit að sveifluhæfileikar Framsfl. eru miklir og að hæstv. forsrh. er íþróttamaður góður, en einhvern veginn þykir mér lítið leggjast fyrir kappann, ég verð að segja það, og má mikið vera ef það á ekki eftir að koma í ljós síðar að öll þessi aðferð hafi haft meiri og óheillavænlegri þýðingu fyrir íslenskt stjórnmálalíf en menn gefa sér tíma til að hugsa um núna í annríki daganna.
    Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að flytja langt mál um þetta frv., en ég var fyrst og fremst með þessar tvær litlu ábendingar í huga sem ég vona að réttsýnir menn í stjórnarflokkunum taki upp og haldi til haga við þá sem ráða þessu fleyi þeirra.