Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. fjmrh. í sjötta sinn. Ég ætla nú að snúa mér að hæstv. forsrh. sem heiðrar okkur hér vegna þess að í svari hæstv. fjmrh. við þessari ákveðnu spurningu í blaðagreininni segir hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: ,,Hins vegar féllumst við á það, þegar þessi stjórn var mynduð, að matarskatturinn héldi gildi sínu í eitt ár.``
    Þetta gefur náttúrlega það til kynna að um þetta hafi verið samið við stjórnarmyndunarviðræður, í málefnasamningi væntanlega. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Var Alþb. með þetta skilyrði? Er þetta skilyrði fyrir stjórnarþátttöku Alþb. eða ekki?
    Ég man vel þá tíð hér fyrir ári síðan þegar hæstv. fjmrh. stóð á kassa inni í versluninni Miklagarði og talaði gegn matarskatti og skoraði á ákveðna ráðherra að mæta þar. Ég man þá tíð. Hann hefur hins vegar gleymt þeirri tíð.
    Hér hafa verið lagðar fyrir hann fjölmargar spurningar varðandi það frv. sem hér liggur frammi. Ekki einni einustu spurningu hefur verið svarað, ekki einni einustu. Það er að mínu mati dæmi talandi dæmi um þau vinnubrögð sem þessi ríkisstjórn viðhefur. Ef það er ekki til skammar þá er ekkert til skammar í þessu þjóðfélagi í dag.