Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Vegna fsp. frá hv. 5. þm. Vesturl. vil ég upplýsa eftirfarandi:
    Í samningum stjórnarflokkanna er ekki tekið fram um, eins og kallað er, lækkun á matarskatti eða lækkun á verði matvæla. Hins vegar er fullt samkomulag um það á milli stjórnarflokkanna að leita leiða til að lækka verð, sérstaklega á matvælum framleiddum hér á landi, og skoða það í sambandi við þá yfirferð sem væntanlegur virðisaukaskattur þarf að fá. En ég vek athygli á því að þessi ríkisstjórn hefur aukið niðurgreiðslur á ákveðnum landbúnaðarafurðum sem eru svo sannarlega í þessum flokki og nemur sú niðurgreiðsla núna, ef ég man rétt, nokkuð yfir 300 millj. kr. Þannig að því fjármagni sem hefur verið ráðstafað í slíku skyni hefur öllu verið ráðstafað til að lækka það verð sem annars væri á matvælum sem framleidd eru innan lands.