Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér var afgreitt við 2. umr. með þessari gífurlega auknu skattheimtu er eitthvert mesta skattafrv. sem samþykkt hefur verið hér á vesturhveli jarðar. Það má leita víða til þess að reyna að finna hliðstæðu í skattlagningu á íbúðarhúsnæði við það sem hér hefur verið samþykkt og það má leita víða til þess að sjá slíka eignaupptöku sem hér er verið að framkvæma. Það er einnig alveg ljóst að þessi skattur, sem er sérstaklega lagður á okkur sem búum hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu, er geysilega óréttlátur því að það liggja sömu tekjur á bak við fólkið sem býr hér, eins og ég sagði þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu, og vandi þess verður því meiri sem þessir skattar verða hærri.
    Sú tillaga sem við hv. 5. þm. Reykv. fluttum, um eignarskatt manna af íbúðarhúsnæði, að hann ætti að reiknast með öðrum hætti en aðrir eignarskattar, var felld hér, því miður, og einnig tillaga um það að sömu eignarskattar væru af íbúðarhúsum um allt land þannig að það væri jafnrétti hjá öllu fólki á landinu. Hér í umræðum kom í ljós að hv. 5. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Norðurl. v. sýndu einmitt fram á í sínum málflutningi hvað um væri að ræða. Hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði: Jú, það eru helmingi lægri gjöld þar, það er helmingi lægri gjaldstofn. Það er verið að ráðast á fólkið hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu með óeðlilega háum sköttum á íbúðarhúsnæði. Þessi stefna sem hér hefur verið samþykkt í kvöld mun lengi lifa og það mun verða hart barist gegn þessu í framtíðinni. Þetta er raunverulega árás á heimilin í landinu og þetta er einhver sú mesta aðför sem getur að sjálfseignarstefnu hér á þessu svæði.
    Ég ítreka að þeir menn sem hafa samþykkt þetta hafa alls ekki gert sér grein fyrir afleiðingunum af þessu. Það er verið að mismuna fólki stórkostlega eftir landssvæðum og eftir því hvort það eru einstaklingar eða fólk í sambúð. Þetta er mjög mikil hækkun, allt upp í 300% eða meiri hjá einstaklingum, sem er einhver almesta hækkun sem sögur fara af hjá skattgjafanum á einu þingi. Á sama tíma sem ríkisstjórnin er að ræða um vandræði í efnahagsmálum er hún að auka áþján fólksins sem þýðir auðvitað það að við næstu kjarasamninga verður barist af hörku og fólkið hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu hlýtur að krefjast hærri launa en á öðrum stöðum í landinu. Og það er ekki nokkur vafi að þetta óhóf sem hér er haft í skattlagningu er langt umfram það sem þörf er á og hefði verið nær að grípa með allt öðrum hætti á ríkisfjármálunum eins og ég hef komið inn á margoft áður. Mér dettur nú í hug að í Þjóðviljanum, blaði hæstv. landbrh., stendur í dag: ,,Afhausanir vinsælar`` og er átt við stöðumælana. Það væri kannski rétt að afhausa ríkisstjórnina líka með sama hætti því það er náttúrlega greinilegt að það þarf að bregðast hart við þeim skattaálögum sem hér hafa verið lagðar á og það þarf að berjast hart fyrir því að þær verði lækkaðar því fólkið í landinu getur ekki tekið á sig meiri álögur

að svo komnu. Það er ekki hægt að velta vanda ríkissjóðs yfir á fólkið í landinu. Ég vara við þessari stefnu, þessari óbyggðastefnu, að ráðast á fólkið hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu með þessum hætti.