Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þó ærið tilefni sé til þess að ræða ítarlega enn á ný við 3. umr. efnisatriði frv. skal ég verða við tilmælum forseta að fara hér ekki mörgum orðum um þau efni. Auðvitað er ljóst að ríkisstjórnin er að þrýsta þessu máli fram með óskammfeilnum hætti með fljótræðisvinnubrögðum á þann veg að hv. Alþingi fær ekki nægan tíma til umfjöllunar og fyrst og fremst auðvitað í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að almenn umræða geti orðið um frv. úti í þjóðfélaginu. En þó að efnisatriði frv. séu alvarleg og háskaleg og hér sé á ferðinni sennilega eitthvert versta og alræmdasta skattafrv. sem nokkru sinni hefur verið flutt hafa í tengslum við þetta frv. gerst enn alvarlegri atburðir sem ekki lúta að efnisinnihaldinu sjálfu. Þar á ég við að það hefur verið staðfest í þessum umræðum að hæstv. fjmrh. fór í fjölmiðlum með ósannindi um efni frv., reyndi vísvitandi að blekkja almenning í landinu með því að segja ósatt um efni frv., og hann hóf máls hér á Alþingi með sömu blekkingunum. Það hefur verið staðreynt í meðferð málsins að hér var um vísvitandi blekkingar að ræða. Ég hygg að þetta sé einsdæmi og engin önnur dæmi séu um vinnubrögð af þessu tagi af hálfu ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hér er um svo fordæmanleg vinnubrögð að ræða að engu tali tekur. Þess vegna er það spurning mín til hæstv. forsrh. nú þegar þetta frv. er til lokaumræðu hér í hv. deild hvort hann hafi verið í vitorði með hæstv. fjmrh. þegar þessum blekkingum var komið á framfæri við alþjóð, hvort hann hafi vitað um þessar vísvitandi blekkingar hæstv. fjmrh. eða hvort þær hafi komið honum á óvart. Ég held að það skipti miklu máli að fá skýr svör við þessu. Auðvitað getum við þm. verið með deildar meiningar svo sem hér hefur komið fram um efni frv. og við skiptumst auðvitað í flokka eftir afstöðu okkar til skattamála. Ég ætla ekki að gera það að frekara umræðuefni hér. En hitt hljóta menn að geta sameinast um, að fordæma vinnubrögð af því tagi sem hæstv. fjmrh. hefur orðið uppvís að, svo alvarleg sem þau eru, svo mjög sem þau grafa undan virðingu ríkisstjórnar Íslands og Alþingis Íslendinga. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh. hvort það sé ekki öruggt að hann hafi verið ómeðvitandi um þessi vinnubrögð og hvort þau séu ekki ríkisstjórninni að öðru leyti óviðkomandi. Það skiptir miklu máli. Jafnvel þó að við séum hér margir hverjir andvígir ríkisstjórninni og vildum gjarnan að hún sæti öll uppi með þetta held ég að vegna heiðurs landsins skipti það máli að það komi hér fram að ríkisstjórnin sitji ekki öll uppi með þessa skömm.