Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða eitt af skattpíningarfrv. hæstv. ríkisstjórnar. Þegar matarskatturinn var lögleiddur á síðasta þingi voru gerðar ráðstafanir til að milda áhrif hans með því að lækka tolla og aðflutningsgjöld, en með þessu frv. er verið að taka þá lækkun til baka auk þess að hverfa frá þeirri einföldun í skattkerfinu sem þáv. fjmrh. og núv. utanrrh. var svo tíðrætt um á þeim tíma.
    Það er ekki ofsögum sagt að þessi hæstv. ríkisstjórn skattpíningar og forræðishyggju ætlar að færa íslenskum heimilum stórar gjafir á þessum jólum. Jólagjafir eru yfirleitt gefnar til að gleðja vini og vandamenn, muna eftir þeim sem eru sjúkir eða búa í einsemd. Hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að verða eftirbátur annarra og ætlar að færa íslensku þjóðinni sína jólagjöf, ætlar að muna eftir heimilunum. Ríkisstjórnin ætlar að muna eftir unga fólkinu sem er að stofna heimili, sem er að koma sér upp þaki og muna eftir þeim sem búa í einsemd, muna eftir ungum sem öldnum.
    Jólasveinarnir hafa verið að færa sig til byggða einn af öðrum þessa dagana. Gluggagægir kom til byggða í dag og í kvöld kom svo jólasveinn ríkisstjórnarinnar til byggða. Hann hefur farið huldu höfði fram að þessu. Ýmsir trúðu ekki á hann, trúðu ekki að hann væri til. En hann birtist í atkvæðagreiðslunni í Nd. í kvöld. Og nú getur hæstv. ríkisstjórn fært íslenskum heimilum gjafir sínar, en ansi er ég hrædd um að það verði litlar gleðigjafir. Þegar menn vakna á aðfangadag jóla hafa íslenskum heimilum verið færðar þessar gjafir í formi aukinnar skattheimtu á öllum sviðum.
    Þetta frv. um vörugjaldið er einn liður í aðför að heimilunum í landinu. Það er aðför að íslenskum iðnaði, það er í verki stuðningur ríkisstjórnarinnar við íslenskan iðnað. Allt ber að sama brunni: laun fryst, skattar stórauknir, kaupmáttur skertur. Þetta frv. er einn liður í því að leggja auknar byrðar á almenning í landinu og þess vegna getum við sjálfstæðismenn ekki staðið að slíkri skattpíningu.