Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að vera stuttorður því að ég sé í sjálfu sér ekki þörf fyrir að segja mjög mikið um þetta mál. Ég vildi þó segja í upphafi að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir, allir íslenskir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem við stöndum, er að við höfum algjörlega misst stjórn á ríkisfjármálunum. Ég held að það verði að segja það hreint út eins og það er að við verðum að viðurkenna þá staðreynd að okkur hefur mistekist að hemja ríkisófreskjuna, hina óseðjandi ríkisófreskju. Við ráðum ekkert við hana lengur. Það er alveg sama hvar í flokki menn standa og hvaða stjórnir eru myndaðar, allar eru í sömu vandræðunum. Þær ráða ekkert við ríkisófreskjuna. ( JE: Það eru gömlu flokkarnir.) Já, ég gæti trúað að við mundum kannski geta komið með ýmsar hugmyndir þar að lútandi að hemja hana, en það á eftir að reyna á það. En það sem verra er er að þetta virðist vera meinsemd sem grefur um sig um alla Vestur-Evrópu. Ríkisfjármálin eru öll í ólestri og lífskjör og hagvöxtur fara að sama skapi minnkandi í þessum löndum meðan mikið hagvaxtarskeið er runnið upp í fjarlægari heimsálfum þar sem minna er talað um að ríkisfjármálin séu öll úr böndum. Þetta er mjög athyglisvert og ég held að við verðum að velta fyrir okkur hvernig standi á þessu. Ég held að það þýði í raun og veru ekki að kenna hvert öðru um að illa hafi farið. Við erum öll meira eða minna samsek.
    Þó hlýt ég að harma þá gífurlegu skattlagningu sem er stefnt að með þessum skattafrv. núv. hæstv. ríkisstjórnar, enda er það andstætt stefnu okkar borgaraflokksmanna að íþyngja almenningi með þeim hætti sem hér er verið að gera og hlýt ég því að harma að einn þingmaður Borgfl. sá ástæðu til að styðja þessi skattafrv. í Nd. við atkvæðagreiðslur fyrr í kvöld.
    Fyrir um það bil ári vorum við að fjalla um frv. til laga um vörugjald. Þá áttu sér stað mjög langar og málefnalegar umræður um frv. í hv. Ed. og ég er sannfærður um að við höfðum þar ýmis rök frammi til að sannfæra þingheim um að þessi skattur er mjög ósanngjarn. Hann kemur illa við margar atvinnugreinar. Í honum felst mikil mismunun. Það kom mjög vel fram í umræðunum fyrir ári að það var ákaflega skringilegt val á vörutegundum sem lentu með vörugjaldi og þeim sem sluppu og mátti jafnvel sjá handbragð eins ákveðins manns í þjóðfélaginu á því vali, töldu sumir. Þetta er almennt talinn mjög óvinsæll skattur af almenningi því að þetta er einkennandi neysluskattur sem kemur almennt illa niður á almenning í landinu.
    Þá er rétt að rifja upp eitt atriði sem ég held að menn megi ekki gleyma. Það er að vörugjaldið var lækkað fyrir um það bil ári frá því sem það hafði verið þá á undan og sömuleiðis var gjaldflokkum fækkað eilítið. Það var gert til að koma á móts við þá gífurlegu hækkun sem varð á matvælum vegna álagningar söluskatts á matvæli þegar matarskatturinn svonefndi var innleiddur. Það var einmitt forsenda fyrir matarskattinum að vörugjald skyldi lækkað og

vörugjaldsflokkum fækkað. Nú er verið að skella vörugjaldinu á á nýjan leik á miklu fleiri vörutegundir þannig að það má segja að hér með bresti forsendurnar fyrir matarskattinum, a.m.k. hvað þá varðar sem stóðu að því að setja matarskattinn á fyrir rúmlega ári. Þess vegna væri gaman að fá rök þeirra sem töldu í lagi að setja á matarskattinn vegna þess að vöruverð mundi almennt lækka með því að þessar breytingar, sem þá voru gerðar á vörugjaldinu, sýndu að ýmsar neysluvörur til almennings mundu lækka í verði.
    Mig langar til að fjalla örlítið frekar um þá mismunun sem vörugjaldið veldur í sambandi við mismunandi iðngreinar, en kannski er fyrst rétt að benda á hversu illa vörugjaldið kemur yfirleitt við iðnaðinn í landinu. Að vísu er það svo að vörugjaldið á að leggjast jafnt á innfluttar vörur og sambærilegar innlendar vörur sem eru framleiddar í landinu, en þrátt fyrir það er ómögulegt að sjá annað en að vörugjaldið valdi því að lokum að innlendur iðnaður stendur verr að vígi í samkeppni við sambærilegar innfluttar vörur.
    Nú er sú meginbreyting gerð á vörugjaldinu að það er reynt að setja á sérstakan sykurskatt. Út af fyrir sig er hægt að taka undir þá hugmynd að það væri eðlilegt að setja sérstakan skatt á sykur og þá allar þær matvörur sem eru með sykurinnihaldi. Það er að sjálfsögðu í samræmi við manneldissjónarmið sem mjög var talað um fyrir ári. Það er hægt að taka undir að vissu leyti þau sjónarmið að það væri æskilegt að skattleggja sykurneyslu með þeim hætti að vörutegundir sem eru með sykurinnihaldi bæru ákveðinn skatt í takt við sykurinnihaldið. En því miður hefur gjörsamlega mistekist að koma þessu í kring þannig að eðlilegt og sanngjarnt megi teljast.
    Iðnrekendur hafa bent á að frv. er því miður mjög flausturslega og illa unnið, enda virðist staðreyndin vera sú að hér er bara gripið í eitthvert hálmstrá til að afla meiri tekna fyrir ríkishítina, einar 1600--1700 millj. eiga að koma í ríkishítina með þessum hætti, en því hefur minna verið velt fyrir sér að það væri verið að leggja á vel útfærðan og vel hugsaðan skatt sem legðist jafnt á alla þannig að það væri ekki um neina mismunun á milli atvinnugreina eða fyrirtækja að ræða. En eins og ég sagði: Þetta hefur því miður gjörsamlega mistekist.
    Mig langar til að lesa upp, með leyfi forseta, minnisblað sem barst til okkar þingmanna í hv. Ed. snemma í kvöld frá Félagi ísl. iðnrekenda, en það fjallar um tillögur til innheimtu á sérstöku 16% vörugjaldi af sykri og hljóðar minnisblaðið svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Vegna fram kominna brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis nr. 306, liður 2 um sérstakt 16% vörugjald vill Félags ísl. iðnrekenda árétta eftirfarandi:
    Sérstakt vörugjald á sykur samkv. 17. kafla tollskrár mun eingöngu koma fram í hækkuðu sykurverði til neytenda sem kaupa í smásöluumbúðum auk tímabundinnar fjárbindingar vörugjaldsskyldra framleiðslufyrirtækja, þ.e. fyrirtækja sem greiða vörugjald af framleiðsluvörum sínum, en það eru

fyrirtæki sem framleiða gosdrykki, sælgæti og kex. Önnur fyrirtæki sem ekki greiða vörugjald af framleiðsluvörum sínum þrátt fyrir mikið sykurinnihald munu ekki þurfa að greiða vörugjald af sykri.
    Skv. 13. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55 1987 er fjmrh. heimilt að endurgreiða eða fella niður gjöld af hráefni til framleiðslu innlendra iðnaðarvara sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkvæmt samningum við EBE og EFTA, jafnframt að lækka eða fella niður gjöld af efnivöru í innlenda iðnaðarvöru ef gjöldin af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni. Samkvæmt þessum tölulið skal ráðherra setja nánari reglur um framkvæmd. Þær reglur er að finna í auglýsingu nr. 69 1988, um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda eða sölugjalds af ýmsum aðföngum til iðnaðar. Sem dæmi um ofangreinda heimild er meðfylgjandi afrit af bréfi fjmrn. til brauðgerðar sem undanþiggur viðkomandi framleiðanda greiðslu allra aðflutningsgjalda, þar með talið vörugjalda, af aðföngum til framleiðslunnar. Sykur er nú án gjalda, en verði ákveðið að leggja á hann 16% vörugjald er ljóst að þau fyrirtæki sem ekki greiða vörugjald af framleiðsluvörum sínum þurfa ekki heldur að greiða vörugjaldið af hráefni, í þessu tilviki sykri. Vörugjaldsskyld fyrirtæki þurfa hins vegar að binda fjármagn með greiðslu vörugjalds á sykri sem þau fá síðan endurgreitt við skil á vörugjaldi af fullunninni vöru. Af þessu má ljóst vera að innheimta vörugjalds af sykri með þessum hætti bitnar eingöngu á fyrirtækjum er framleiða gosdrykki, sælgæti og kex án þess að snerta aðrar vörur með miklu sykurinnihaldi auk þess að hækka verð á sykri sem seldur er til neytenda í verslunum.``
    Það eru ýmis skringileg dæmi sem má taka í þessu sambandi. T.d. er bent á að á gosdrykki, þar er sykurinnihald oft um 10%, verður lagt vörugjald. Hins vegar er orðin mikil framleiðsla á Íslandi á jógúrt þar sem sykurinnihald getur verið allt upp í 20%, en það er án vörugjalds. Það sjá allir um hvers konar mismunun er hér að ræða. Það er ekki raunverulega, eins og hefur komið fram áður í máli mínu, gerð nein tilraun til að skattleggja sykur eða sykurinnihaldið. Það er hins vegar út í bláinn lagt vörugjald á ákveðnar vörutegundir þar sem er þægilegt að koma skattinum við án þess að það verði flókið mál fyrir ráðuneytið að höndla skattheimtuna.
    Í þessu sambandi má minna á að á hinum Norðurlöndunum hafa verið teknir upp sérstakir sykurskattar. Þá er það gert með þeim hætti að sykurinnihald vörunnar er skattlagt sérstaklega og þá eftir þeim hlutföllum sem sykurinnihaldið er. Auðvitað er þetta eina leiðin ef á annað borð á að skattleggja sykur vegna manneldisstefnu, að skattleggja þá sykurinnihald sérhverrar vöru þannig að sykurskatturinn sé í hlutfalli við sykurinnihald hennar.
    Það er mjög athyglisvert að benda á eitt dæmi sem hlýst af þessu, hvernig Norðurlöndin reyna að vernda iðnaðarframleiðslu sína. Þannig má t.d. benda á að í Danmörku, ef erlendur aðili hyggst flytja þangað inn

sælgæti, t.d. súkkulaði frá Íslandi, við skulum taka það sem dæmi, þá verður hinn erlendi framleiðandi að gera mjög nákvæma grein fyrir sykurinnihaldi vörunnar, þ.e. í þessu tilviki súkkulaðisins, bæði þess beina sykurinnihalds sem er í vörunni vegna íblöndunar hreins sykurs og/eða annars konar sykurs, t.d. eins og mjólkursykurs, sem kemur vegna annarra efna sem eru í vörunni. Slík nákvæm efnagreining verður að fylgja vörunni til þess að hún fái innflutningsleyfi til Danmerkur. Þetta er svo flókið og erfitt mál að þarna er töluverð vernd fyrir danska iðnaðarframleiðslu gegn innflutningi erlendis frá. Hér er þetta eiginlega alveg öfugt. Vara sem er framleidd erlendis á mjög greiðan aðgang inn á íslenskan markað. Það er ekkert gert hér til að krefja slíkra upplýsinga, eins og ég var að nefna áðan að er gert í Danmörku t.d., heldur getur flóðið streymt inn í landið óhindrað. Tollayfirvöld hafa í raun og veru engan áhuga á að vita hvað er í þessum vörum bara ef þau geta fengið sína tolla og söluskattinn og þeim er alveg sama þó innlendur iðnaður smám saman leggi upp laupana vegna þess að samkeppnin er óheft. Það er ekki gerð nein tilraun til að gera eins og hin Norðurlöndin, þ.e. að reyna alltaf að gæta hagsmuna innlends iðnaðar þegar verið er að hamla gegn samkeppni erlendis frá.
    Þá vildi ég að lokum benda á eitt atriði enn og það er þörfin fyrir þessa
skattlagningu. Það er eins og ég gat um í upphafi máls míns augljóst að það vantar meira í óseðjandi ríkishítina og vörugjaldsálagningunni, þessari breyttu vörugjaldsálagningu, er ætlað að útvega ríkissjóði um það bil 1600--1700 millj. kr. Nú hefur það komið fram m.a. í máli fulltrúa Borgfl. í hv. fjvn. í ræðu sem hann flutti við 2. umr. fjárlaga að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að finna leið til að skera niður útgjaldahlið fjárlaga um einmitt eitthvað sem þessu næmi, 1600--1700 millj. Í raun hefur Borgfl. í huga að leggja fram slíka sparnaðartillögu við 3. umr. fjárlaga, að það sé hægt að sýna fram á að það megi enn þá draga saman útgjaldahlið fjárlaganna sem nemur 1600--1700 millj. kr. Því er þetta frv. í raun og veru óþarft. Það hefði verið nær að leggja vinnu í að skera fjárlögin niður, lækka útgjöld ríkisins og taka þetta óvinsæla gjald burtu eða með öðrum orðum að fjarlægja þetta frv. úr þingsölum og gleyma því að það hafi nokkurn tíma verið til.