Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að vera langorður. Ég ætlaði aðeins að taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði um þetta vörugjald og lýsa þeirri skoðun minni að ég er mótfallinn frv. Ég tel að það hafi verið mjög kastað höndum að samningu frv. og harma að þetta frv. hafi hlotið mjög litla umræðu í Nd. og sérstaklega í hv. fjh.- og viðskn. Nd. og erfitt hafi verið að koma að sjónarmiðum þeirra aðila sem þetta vörugjald bitnar sérstaklega á.
    Þegar síðasta ríkisstjórn lagði fram skattafrv. sín rétt fyrir síðustu áramót var það ein af meginforsendum þeirrar skattlagningar og þá sérstaklega skattlagningarinnar á matvæli að vörugjald yrði lækkað og tekjustofnar felldir niður að öðru leyti. Nú aftur á móti bregður svo við að þarna er verið að leggja sömu skattana á og felldir voru niður síðast og hlýt ég að harma að svo hafi verið gert og sé verið að gera. Fólk býr við mjög hátt vöruverð og þessi skattur kemur beint ofan á það háa vöruverð sem nú er. Ég mun þess vegna ekki styðja þessa skattlagningu. Ég held að þegar svo er komið sem nú er beri frekar að hugsa um að skera niður ríkisútgjöldin og ríkið þurfi eins og fjölskyldur og fyrirtæki í kreppuástandi að draga saman seglin og haga sér í samræmi við breyttar aðstæður.
    Vörugjald er einn af nýju sköttunum sem eru millistig á milli tekjuskatts og tolla og hefur verið laumað í gegnum löggjöfina til að villa um fyrir fólki og koma oft mjög illa niður á fyrirtækjum, samkeppnisiðnaðinum sérstaklega, sem þurfa að berjast við erlenda samkeppnisaðila. Ég held að það ætti að takmarka mjög þessa skattlagningu.
    En eins og ég sagði í upphafi taldi ég einungis rétt að koma hér upp til að lýsa skoðun minni á þessu frv. Ég tel að sú hækkun sem þarna er verið að boða sé í andstöðu við stefnu a.m.k. fyrri ríkisstjórnar og þau loforð sem hún gaf þjóðinni þegar matarskatturinn svokallaði var settur á. Það má einnig benda á að það aukagjald sem er í B-hluta þessa frv., svokallað 16% sykurgjald, komi mjög illa niður á þeim fyrirtækjum sem hafa þó þraukað enn í sælgætisiðnaði og mismuni mjög verulega þeim fyrirtækjum og svo erlendu keppinautunum.
    En þar sem ég er síðasti ræðumaður, vonandi, hef ég þetta mín síðustu orð.