Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Hér eru nú viðhöfð sömu vondu vinnubrögðin ár eftir ár á Alþingi rétt fyrir jólahlé og má með sanni segja að þingmenn séu oft eins og hálfgerðir jólasveinar þegar málin drífa að þeim ótt og títt eins og pappírshríð eða e.t.v. ætti ég að segja eins og álfar út úr hól. Ekki batnar nú meðferð málanna við þetta eða útkoman og eins víst að við munum verja einhverjum tíma til þess á næsta ári að leiðrétta sum þeirra mistaka sem hlotist hafa af asa og flaustri. Það merkilega er að menn láti þetta yfir sig ganga árlega og reyndar tvisvar á ári því sama háttalag er haft á vorin fyrir þinglok. Flestir þingmenn viðurkenna að vinnulagið sé ótækt og þinginu til vansa en samt er engu breytt og það er rannsóknarverkefni út af fyrir sig hvers vegna menn sækja í þennan óvana eða geta ekki hrist hann af sér.
    Það frv. sem nú er til umræðu varðar breytingar á skattalögum, en fyrir u.þ.b. ári gengu í gildi róttækar breytingar á skattalögunum sem m.a. voru undirbúnar af milliþinganefnd skipaðri fulltrúum allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Það frv. sem hér er til afgreiðslu felur í sér margvíslegar breytingar á þessum lögum, en þær þyrftu í raun mun nánari athugunar við en okkur hefur gefist svigrúm til.
    Auðvitað væri ástæða til að ræða almennt um skattlagningu og skattamál, en ég mun ekki gera það nú. Hins vegar vil ég minnast lítillega á nokkur atriði sem því tengjast. Það er í sjálfu sér rétt og gott markmið að stefna að hallalausum fjárlögum og jafnvel að eiga afgang. Það gildir reyndar um allan búskap og rekstur. En hins vegar má velta því fyrir sér hvort hreinlega borgi sig fyrir ríkissjóð að ætla sér að taka þessar fyrirhuguðu 900 millj., eða hvað upphæðin er nú stór, úr umferð og minnka þannig ráðstöfunartekjur fólks sem væntanlega hefðu að öðrum kosti skilað sér í neyslu af ýmsu tagi. Þeir peningar sem þarna eru teknir með beinum sköttum mundu að öllum líkindum skila sér að miklum hluta í gegnum óbeina skatta í ríkissjóð, en hefðu jafnframt gert nokkurt gagn í efnahags- og atvinnulífi landsins. Eins stórlega og tekjur ríkissjóðs hafa nú þegar minnkað af veltu og neyslu og ef tekið er tillit til þess samdráttar sem líklegur er geta menn spurt hvort nokkuð veiti af þessum peningum í veltunni og hvort þeir mundu ekki þegar upp er staðið skila sér í raun betur. Og einu megum við ekki gleyma, að þessar skatthækkanir á að greiða upp með miklu verðminni krónum en áður voru. Kaupmáttarrýrnunin sem hefur orðið á sl. ári er talsvert mikil, verðbólgan er á fullri ferð eða var langt fram eftir hausti og þar á ofan hefur launafrystingin verið talsvert árangursríkari en verðstöðvunin þannig að tölur fyrir og eftir breytingu eru í raun alls ekki sambærilegar.
    Ég mun ekki fara út í einstök atriði frv. nema að litlu leyti og væri réttara að gera það við 2. umr., en þar er m.a. lagt til að hætta að miða framreiknun persónuafsláttar og barnabóta við lánskjaravísitölu eins og lögin kveða á um en taka í þess stað upp skattvísitölu sem breytist árlega. Þannig er horfið frá

því markmiði að tengja skattbyrði einstaklinganna við verðlagsþróun en samkvæmt núgildandi lögum minnkar skattbyrðin hlutfallslega ef samdráttur er í launum. Auk þess er í frv. lögð til hækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga, en sú breyting þýðir hærri álögur á fólk með meðaltekjur og lægri tekjur en yrði ef lögin héldust óbreytt.
    Þess vegna fluttu hv. þm. Kvennalistans í Nd. ýmsar brtt. sem við munum hugleiða og væntanlega endurflytja, a.m.k. að einhverju leyti, fer þó talsvert eftir umfjöllun um málið í nefndinni á morgun. Þessar brtt. fólu það í sér að núgildandi lög yrðu óbreytt a.m.k. hvað varðar framreiknun persónuafsláttar og barnabóta og að skatthlutfallið yrði ekki hækkað.
    Kvennalistakonur eru þó alls ekki frábitnar því að sækja meira fé í ríkissjóð með skattheimtu og sjáum við nauðsyn á því að bæta einhvern veginn upp þá fjárvöntun sem þar ríkir og lögðum reyndar til að háar tekjur yrðu skattlagðar sérstaklega þegar skattalagabreytingarnar voru til umræðu fyrir u.þ.b. ári og þá áttum við bæði við tekjuskatt og útsvar. Við höfum ekki gert tillögur um það nú, en erum þó enn þeirrar skoðunar og munum vinna áfram að því máli.
    Við höfum einnig haft það í stefnu okkar að rétt sé að skattleggja eignir umfram hófleg mörk. Það var einmitt ætlað að gera í 19. gr. þessara laga og voru þar gerðar lítillegar breytingar til batnaðar. En við teljum að sú brtt. sem var reyndar samþykkt í Nd. sé ekki grundvölluð á nægilega ítarlegum athugunum þó að viðmiðunarmörkin hafi verið til bóta.
    Við höfum, eins og kom fram í atkvæðagreiðslu í Nd., verið hlynntar ýmsum þeim breytingum sem felast í frv. í meginatriðum þar sem lögð er til aukin skattlagning á fyrirtæki, en teljum þó að þessar tillögur hafi ekki fengið nægilega umfjöllun frekar en margt annað í frv. þessu og öðrum sem hér eru rekin hart í gegnum deildir nú fyrir þinghlé.
    Ég mun ekki orðlengja frv. frekar. Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir hefur áheyrnaraðild að fjh.- og viðskn. Þar fer þetta mál til umfjöllunar í fyrramálið og gefst þá kostur að ræða það frekar við 2. umr. og þá sérstaklega ef ekki fást fram einhverjar frekari breytingar á málinu við þá umfjöllun.