Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vildi gjarnan óska eftir því að hæstv. fjmrh. væri nú viðstaddur þegar þetta frv. hans kemur hér til umræðu, svo mjög sem hann hefur lagt áherslu á að þröngva þessu gerræðislega frv. í gegnum Alþingi nú fyrir jólaleyfi þingmanna, og ég hef einnig talið rétt að hæstv. viðskrh., sem hefur verið forustumaður fyrir því að kúvenda stefnu Alþfl. í efnahags- og atvinnumálum og skattamálum með svo rækilegum hætti að engin dæmi eru um aðra eins kúvendingu í samanlagðri stjórnmálasögu landsins, væri nú viðstaddur. Ég hefði gjarnan viljað að þessir tveir hæstv. ráðherrar væru viðstaddir umræðuna. En þeir hafa að því er virðist ekki meiri áhuga á framgangi þessara mála en svo að þeir hafa ekki séð ástæðu til þess að heiðra þessa hv. deild með nærveru sinni. Ég vil inna forseta eftir því hvort ekki sé rétt að ég fresti ræðu minni og gert sé hlé á þessari umræðu þangað til hæstv. ráðherrar sjá ástæðu til að taka hér þátt í umræðum og fundarstörfum. ( Forseti: Það skal fram tekið af þessu tilefni að þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að hafa upp á viðkomandi ráðherrum. Þær upplýsingar liggja fyrir að hæstv. fjmrh. sé á leiðinni en leit stendur yfir að hæstv. iðn.- og viðskrh. Ég legg það í vald þingmanns hvort hann getur tekið fyrir aðra þætti ræðu sinnar sem snúa ekki beinlínis að þessum ráðherrum, og þá kannski með tilvísun til þess að hæstv. forsrh. er mættur, eða hvort hann telur nauðsynlegt að gera hlé á ræðu sinni þar til annar hvor þessara ráðherra eða báðir eru mættir.) Ég tel nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræðuna og vildi þá gjarnan gera hlé á ræðunni. ( Forseti: Þá gerum við hlé á ræðu hv. þm. þangað til hæstv. fjmrh. er mættur.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Ég hef skilið það svo að hæstv. ríkisstjórn hefði nokkurn áhuga á að ná fram skattahækkunarfrumvörpum sínum. Að vísu gerðist það þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu frv. að hann þurfti að biðjast afsökunar á því að koma of seint til þingfundar og geri ég ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi verið að finna sér þá nokkra stund til þess að fresta því að mæla fyrir þessu makalausa frv. sem hér liggur fyrir. Ég trúi því að hann hafi enn á ný fengið samviskubit og mikinn efa í matarhléi hér í kvöld og ætli að draga það að koma til fundar. Kannski hefur samviskubitið verið orðið svo mikið að hæstv. ráðherra hafi alls ekki ætlað að mæta og ef það er þá er auðvitað sjálfsagt að skjóta afgreiðslu þessa máls á frest, svo makalaust sem það er. Ef það er ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra sá ekki ástæðu til að mæta hér í upphafi fundar að samviskan er farin að naga hann, þá stendur ekki á því að það geti orðið samkomulag um að skjóta afgreiðslu málsins á frest.
    Þetta frv. er einstakt fyrir margra hluta sakir, ekki einasta vegna þess makalausa efnisinnihalds sem það hefur að geyma, ekki einasta vegna þeirra árása á launafólkið í landinu og atvinnufyrirtækin í landinu, heldur líka fyrir þá sök hvernig staðið var að undirbúningi frv. og kynningu þess úti í þjóðfélaginu og hér inni á hinu háa Alþingi.

    Hæstv. ráðherra hóf kynningu á þessu frv. í fjölmiðlum með því að segja þjóðinni að nú væri hann að koma með skattafrv. sem ætti að hafa það innihald að hækka skattleysismörkin, lækka skatta á lágtekjufólkinu og alveg sérstaklega var tekið fram að hér væri skattafrv. sem ætti að létta skatta á einstæðum foreldrum. Og þegar hæstv. ráðherra kom og mælti fyrir frv. í þessari hv. deild, þá hélt hann uppteknum hætti, að bera þessar staðreyndir á borð. Síðar kom í ljós að allt var þetta rangt. Hvergi örlaði á því að þessi boðskapur, sem hæstv. ráðherra lét ganga út til þjóðarinnar og flutti hér í hv. deild, hefði við rök að styðjast, enda eyddi hæstv. ráðherra meginhluta framsöguræðu sinnar í það að flytja framsöguræðu fyrir frv. sem ekki var flutt, en það er annað mál.
    Því hefur verið haldið fram að hæstv. ráðherra hafi fengið Alþfl. og Framsfl. til fylgis við þetta frv. með sömu aðferðum og hann ætlaði að blekkja þjóðina til fylgis við það: með því að segja þessum flokkum ósatt um hið raunverulega efnisinnihald. En það hefur nú gerst að hæstv. fjmrh. hefur beinlínis og markvisst og vísvitandi ætlað að blekkja fólkið í landinu til stuðnings við þetta frv. með ósönnum yfirlýsingum um efnisinnihald þess. Hann gerði tilraun til að afla þess stuðnings hér í hv. deild með því að bera þessi ósannindi fram og allar líkur eru á því að hann hafi fengið stuðning þingflokka Framsfl. og Alþfl. með því að bera sömu ósannindi fram í þessum flokkum. Þetta er auðvitað alvarlegt og ámælisvert og ég hygg að engin dæmi séu um það að ráðherra hafi komið fram með þessum hætti, að ráðherra hafi ætlað og reynt að fá fylgi við frv. með þessum hætti. Og það er makalaust að ráðherra skuli sitja eftir að hafa komið fram gagnvart fólkinu í landinu á þennan hátt.
    Staðreyndin er sú að þetta frv. felur í sér að skattleysismörkin lækka, felur í sér hækkun á sköttum á öllu almennu launafólki í landinu, ekki síst einstæðum foreldrum. Með þessu frv. eru gerðar margar breytingar á veigamiklum grundvallaratriðum staðgreiðslulaganna. Hér í umræðunum hefur verið á það bent að fella á úr gildi það ákvæði staðgreiðslulaganna að skattfjárhæðir eins og
persónuafslátt og barnabætur, sjómannafrádrátt o.fl. skattfjárhæðir eigi að endurskoða samkvæmt lánskjaravísitölu. Þegar staðgreiðslulögin voru sett var þetta grundvallaratriði. Staðgreiðslulögin voru þáttur í samningum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og hæstv. núv. forsrh. og hæstv. forsrh. í þáv. ríkisstjórn átti ekki svo litla hlutdeild að eigin sögn í því samkomulagi. Það er deginum ljósara að aðilar vinnumarkaðarins lögðu á það höfuðáherslu að þetta efnisatriði væri í frv. til að tryggja hagsmuni skattborgaranna, til þess að tryggja það að ef stjórnvöld ætluðu sér að breyta skattheimtunni, auka skattheimtuna, þá yrði það gert með því að breyta skatthlutföllum í lögunum sjálfum á hinu háa Alþingi, en ekki með handaflsákvörðunum ríkisstjórnar með því að ákveða skattvísitölu í fjárlagafrv. Þetta var grundvallaratriði af hálfu vinnumarkaðarins sem tók

þátt í þessari þjóðarsátt. Og er það svo, hæstv. forsrh., að Framsfl. hafi í raun og veru fallist á það, er það raunverulega afstaða Framsfl. að falla frá þessu samkomulagi, að brjóta þetta samkomulag sem lýtur að grundvallaratriðum skattheimtunnar? Ef hæstv. ríkisstjórn þarf að hækka skattana og ætlar sér að gera það með þessum þingmeirihluta sem hún hefur, þá er það unnt með því að breyta skatthlutföllum. En það er ámælisvert að ætla að gera það bakdyramegin með þessum hætti. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn til að breyta þessu ákvæði frv. þó að hann í engu falli frá áformum sínum um hina auknu skattheimtu. Er ekki hæstv. forsrh., áður en það slys gerist að þessu ákvæði sé breytt, reiðubúinn til að beita sér fyrir því að þessu verði breytt í meðförum þingsins áður en þetta frv. hlýtur hér lokaafgreiðslu? Ég vil gjarnan fá um þetta svör vegna þess að hæstv. forsrh. átti aðild að því samkomulagi milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þar sem þetta var eitt af grundvallaratriðunum.
    Með þessum hætti felur frv. í sér verulega hækkun á sköttum svo sem hér hefur verið gerð mjög rækilega grein fyrir. Tökum dæmi af venjulegri fjölskyldu, hugsanlega í sjávarþorpi úti á landi, hjónum með tvö börn sem hafa 150 þús. kr. í mánaðarlaun sameiginlega. Eiginkonan vinnur við fiskverkun í bónus til þess að drýgja tekjurnar og eiginmaðurinn vinnur einnig við fisk, þarf að leggja á sig nokkra yfirvinnu til þess að heimilið hafi nægjanlegar teljur. Samanlagt hafa þau 150 þús. kr. í tekjur á mánuði með mikilli vinnu og miklu vinnuálagi í bónus. Hvaða þýðingu hefur þetta skattafrv. og þau skattafrv. sem hæstv. ríkisstjórn er nú að koma fram með fyrir þessa fjölskyldu?
    Ef við tökum fyrst afleiðingar af þeim breytingum sem frv. mælir fyrir um fyrir þessi hjón, þá hækka skattgreiðslur þessara hjóna úr 151.500 kr. í 193.000 kr. eða um 41.000 kr. vegna frv. Síðan koma áhrif vörugjaldsins. Þau þýða um 9.000 kr. í auknum útgjöldum fyrir þessa fjölskyldu. Um 9.000 kr. til viðbótar þeim 41.000 kr. sem þessi fjölskylda á að greiða í hærri skatta í formi tekjuskatta. Síðan koma áhrif vörugjaldsins vegna breytinga á vísitölum, þar á meðal lánskjaravísitölu, sem eykur skattbyrði fjölskyldunnar um 1.600 kr. eða þar um bil. Og loks kemur hækkun eignarskattsins sem eykur skattgreiðslur þessarar fjölskyldu um 3.000 kr. og býr hún þó ekki í íbúð af þeirri stærð sem fellur undir hátekju- eða stóreignaskattþrep hæstv. fjmrh. Þessi fjölskylda, sem áður greiddi um 161.000 kr. í skatta greiðir nú um 216.000 kr. Skattbyrði þessarar fjölskyldu hækkar því um 55.000 kr. Skattar þessarar fjölskyldu hækka um 30%. Skattar þessarar dæmigerðu fjölskyldu, sem vinnur láglaunastörf í sjávarþorpi úti á landi, hækka um 30%. Það er þetta sem hæstv. ríkisstjórn er að koma hér fram með offorsi nú fyrir jólaleyfi þingmanna. Og það er þetta sem jafnvel einstaka verkalýðsforingjar hér inni á þingi ætla að veita brautargengi. Það er þetta sem Alþýðusamband Íslands

hefur verið að mótmæla, þar á meðal verkalýðsforingjar Alþfl. En þeir koma hér svo inn glaðhlakkalega þegar þeir koma inn á Alþingi og krefjast þess ekki einungis að þjóðin fái þetta í nýársgjöf heldur gera þeir þá kröfu að þjóðin fái þessa skattahækkun í jólagjöf eftir að hafa setið á fundum Alþýðusambandsins og sent mótmælayfirlýsingar og útreikninga á villandi vinnubrögðum og fölsunum hæstv. fjmrh. Þetta eru staðreyndirnar sem fyrir liggja.
    Tökum dæmi af hv. 3. þm. Vestf. sem býr í dæmigerðu sjávarplássi úti á landi. Hann fer til síns heima nú fyrir jólaleyfið með boðskap ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Karvel Pálmason, til sinnar heimabyggðar. Hann fer með boðskap ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi færir hann útgerðarmönnunum, sjómönnunum og fiskvinnslufólkinu þá ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að aðhafast ekkert til að styrkja stoðir sjávarútvegsins í landinu. Ekkert á að gera. Ekkert hefur verið aðhafst í þeim efnum. Það er fyrsti boðskapurinn, fyrsta jólagjöfin sem þessi hv. stjórnarþingmaður færir sínu sjávarplássi.
    Jólagjöf númer tvö er 30% skattahækkun hinnar venjulegu fjölskyldu sem vinnur við fiskvinnu í sjávarþorpinu þar sem þessi hv. þm. á heima. Þetta er boðskapurinn sem þessir þingmenn fara með. Þetta er boðskapur hæstv. ríkisstjórnar og jólagjöf hennar. Og það er makalaust hvernig umskipti Alþfl.
hafa verið í þessum efnum.
    Um langan tíma hefur Alþfl. verið baráttuflokkur í orði kveðnu fyrir því að lækka tekjuskatta, hækka skattleysismörk, talið sig standa framar öðrum flokkum í þeirri baráttu. Nú koma alþýðuflokksþingmennirnir inn á Alþingi í kjölfar hæstv. fjmrh. sem virðist vera nánast einráður um efnahags- og fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar. Fyrst mótmæla þeir hækkun á tekjuskatti, síðan gefa þeir það eftir. Þá setja þeir þau viðmiðunarmörk að skatturinn megi ekki hækka nema um 2% og auðvitað gefa þeir það eftir líka. Í einu og öllu láta þeir undan. Í einu og öllu snúa þeir öllu því við sem þeir hafa áður verið talsmenn fyrir. Fyrir réttu ári voru þeir talsmenn breytinga í skattamálum, einföldunar og skilvirkni í skattamálum. Þá voru tengdar saman órjúfanlegum böndum samkvæmt margítrekuðum ummælum þáv. hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. utanrrh. breytingar á söluskatti á matvæli og einföldun og lækkun tolla og vörugjalda. Nú er þessu snúið við. Nú á að falla frá einföldun vörugjaldanna. Nú á að hækka vörugjöldin án þess að lækka söluskattinn á matvæli samhliða því sem verið er að hækka tekjuskattinn með þeim ósköpum sem hér er verið að gera, með því að leggja hann af fullum þunga á lágtekjufólkið í landinu.
    Hæstv. viðskrh. hefur verið talinn forustumaður fyrir þessum umskiptum í Alþfl., forustumaður fyrir þeim umskiptum að flokkur sem áður studdi frjálslyndi í efnahags- og atvinnumálum hefur núna lýst því yfir með fyrirsögn í ályktun flokksþings um

efnahags- og atvinnumál að gjalda beri varhug við of mikilli áherslu á einkaframtak, flokkur sem gengið hefur undir þá stefnu sem hæstv. forsrh. lýsti, að hverfa yrði frá vestrænum viðurkenndum aðferðum í stjórn efnahagsmála. Hæstv. viðskrh. hefur verið talinn forustumaður þessara umskipta í Alþfl.
    Formaður Alþfl. hefur sýnt sóma sinn í því að vera sem minnst við þær umræður sem hafa farið fram um þessi efni og er hann maður að meiri fyrir það. Er hann maður að meiri fyrir að viðurkenna þessi umskipti, gefa jafnvel til kynna með því að vera hér sem minnst við að innst í hjarta hans sé sú ósk að geta fylgt hinni gömlu stefnu Alþfl. En hann fær engu ráðið þar um.
    Hæstv. viðskrh. skuldar þjóðinni nokkrar skýringar á þeirri forustu sem hann hefur tekið fyrir þessari kollsteypu og það stórbrotnasta af öllu er hvernig afstaða Alþfl. gagnvart húsbyggjendum í landinu, hvernig hin nýja stefna Alþfl. í húsnæðismálum kemur fram í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar.
    Hin nýja húsnæðisstefna Alþfl. kemur fram í því að stórhækka byggingarkostnaðinn, leggja skatt á unga fólkið sem þarf að afla aukinna tekna til að standa undir auknum útgjöldum við öflun íbúðarhúsnæðis og leggja svo skatt á Húsnæðisstofnunina þegar fólkið kemur þangað til að leita greiðsluerfiðleikalána. Hæstv. félmrh. hefur margsinnis skotið sér undan því þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hér að gera grein fyrir þeirri hugsjón sem liggur að baki þessari stefnubreytingu. En væntanlega mun hæstv. viðskrh. gera grein fyrir þessari hugsjón í þessum umræðum. Alþfl. hefur ekki látið svo lítið að því er varðar stefnuna í húsnæðismálum., Alþfl. hefur ekki látið svo lítið þegar hann hefur verið að telja fólkinu trú um að þar færi sá flokkur sem hefði hagsmuni húsbyggjenda í huga. Loksins þegar eitthvað er gert í þessum efnum sem máli skiptir er það með þessum hætti. Það er hin eina og sanna hugsjón Alþfl. í þessum efnum.
    Hæstv. fjmrh. fór af stað með skattahækkanir upp á fleiri milljarða kr. með miklum yfirlýsingum svo sem menn muna. Það átti að færa til milljarða króna í þjóðfélaginu, eins og það var orðað, frá fjármagnseigendunum og ríka fólkinu í landinu, með fjármagnstekjuskatti, með hátekjuskattþrepi og þar fram eftir götunum. Hver er niðurstaðan af öllum þeim stóru orðum? Það er verið að leggja skatt á neysluvörur almennings, það er verið að leggja skatt á þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið, almúgafólkið og unga fólkið í landinu. Það er verið að hækka skatta á lágtekjufólki í landinu í formi tekjuskatta. Hæstv. ráðherra hafði þó manndóm í sér, og það verður að virða við hann, að falla frá kröfunni um öryrkjaskattinn sem var fyrsta hugsjón hans. Undir merkjum félagshyggjunnar til að færa fjármagn frá ríka fólkinu í landinu átti að leggja á öryrkjaskatt. Hæstv. ráðherra hafði sómatilfinningu til að falla frá þessari skattheimtu og þrátt fyrir allt verður að virða það til betri vegar.
    Hæstv. ráðherra ætlaði svo að kóróna skattastefnu ríkisstjórnar sinnar með því að afnema heimild til

fyrirtækja til frádráttar á framlögum til menningarmála og velferðarmála og vísindarannsókna. Þar birtist hin eiginlega afstaða Alþb. til þessara verkefna, til þeirra samtaka sem að slíkum stofnunum, að slíkum verkefnum vinna, til að mynda Hjálparstofnun kirkjunnar. Hæstv. ráðherra fékk nú heldur betur ádrepu frá framkvæmdastjóra þeirrar stofnunar. Það virðist vera nákvæmlega sama hvaða velferðarsamtök það eru í þjóðfélaginu. Það hefur verið helsta hugsjón hæstv. fjmrh. í nafni félagshyggjunnar að leggja þar á skatta. Sem betur fer hefur tekist að koma í veg fyrir þessa smán. Sem betur fer hefur hæstv. fjmrh. sætt sig við þetta.
    Öll vegferð þessa frv. er með ólíkindum, upphaf þess, kynning og með hvaða
hætti á að hraða afgreiðslu þess í gegnum Alþingi án þess að gefa þingmönnum nægjanlegt ráðrúm til þess að fjalla um þetta, án þess að gera þjóðinni nægjanlega grein fyrir hinu raunverulega innihaldi. Þegar frv. var lagt fram á Alþingi lá fyrir í yfirlýsingum frá hæstv. forsrh. að stjórnarflokkarnir höfðu þá ekki enn komið sér saman um endanlegt efnisinnihald frv. og raunin varð sú að það samkomulag varð ekki fyrr en í gær. Samt er það krafa hæstv. fjmrh. að nýta hér hinn nýja þingmeirihluta til að keyra þetta mál í gegn á örfáum klukkutímum til þess að almenn umræða geti ekki orðið um það í þjóðfélaginu. Auðvitað af engum öðrum ástæðum. Auðvitað er dregið að koma með þetta fram í þeim tilgangi að hindra að almenn umræða geti orðið um þetta í þjóðfélaginu.
    Hæstv. ríkisstjórn mun hafa hina mestu skömm af þessu máli.