Framhaldsskólar
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Þegar mál þetta kom frá Ed. fól það í sér að gildistöku fjármálakafla framhaldsskólalaganna yrði frestað og einnig að skólanefndir sem starfa við framhaldsskólana skyldu halda umboði sínu eins og fyrri lög væru áfram í gildi.
    Nefndin hefur fjallað um þetta mál og niðurstaðan er sú að meiri hl. nefndarinnar flytur brtt. við frv. þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt eins og það kemur frá Ed. með þeim breytingum að ekki er lengur vísað til 6. og 8. gr. og niðurlag frv. um skólanefndirnar er einnig fellt niður. Þetta er gert til samkomulags og til að greiða fyrir málsmeðferð í þinginu. Segja má að spurningin um skólanefndirnar sé óútkljáð og er það sérstaklega tekið fram í nál. að nefndin hafi ekki fjallað um skólanefndirnar og muni taka þau mál sérstaklega til umræðu ásamt menntmn. Ed. eftir áramótin.
    Ég ítreka að allt er þetta gert til að greiða fyrir málsmeðferð og til að tryggja að meginatriði málsins, þ.e. gildistaka fjármálakaflans og frestun gildistökunnar, nái fram að ganga fyrir áramót. Þó klofnaði nefndin um afstöðu sína til málsins. Þórhildur Þorleifsdóttir skilar séráliti og Ragnhildur Helgadóttir og Birgir Ísl. Gunnarsson skrifa undir nál. með fyrirvara þar sem þau styðja ekki frv. en una þessari málsmeðferð.