Tollalög
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég hafnaði að flytja frv. með meðnefndarmönnum mínum í hv. fjh.- og viðskn. er sú að ég er ekki sannfærð um ágæti röksemdafærslunnar sem fram kemur í greinargerðinni og vildi miklu heldur fá söluskattinn niður felldan af öllu grænmeti. Ég tel að okkur beri að stuðla að því að verðlag á grænmeti sé sem lægst og ég minni á að hv. þm. Alþb. voru okkur kvennalistakonum sammála um það fyrir ári að það bæri að undanþiggja grænmeti söluskatti. Ég tel raunar að það felist næg vernd fyrir íslenskt grænmeti í þeim höftum sem eru lögð á innflutt grænmeti þegar sambærilegt íslenskt grænmeti er á boðstólum.
    Neysla grænmetis fer sem betur fer sífellt vaxandi og það er ekki spurning í mínum huga að íslenskt grænmeti tekur innfluttu grænmeti í flestum tilvikum fram. Hins vegar viljum við íslenskar húsmæður eiga kost á fjölbreyttu grænmeti allan ársins hring og vitaskuld á sem lægstu verði.
    Innlendir grænmetisframleiðendur virðast þó, samkvæmt því sem fram kemur hér í greinargerðinni, vera uggandi um sinn hag og telja þessa lagasetningu nauðsynlega meðan þeir athuga sinn gang og freista þess að laga stöðu sína. Ég vil á engan hátt gera þeim erfitt fyrir um það efni og mun því ekki standa gegn frv. Gagnstætt því sem kom fram í máli hv. 1. flm. þá mun ég ekki standa gegn frv. þótt ég treysti mér ekki til þess að flytja það með öðrum nefndarmönnum í hv. fjh.- og viðskn.