Þjóðargjaldþrot
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Þann 16. nóv. sl. var haldinn aukafundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna vegna þeirrar erfiðu stöðu sem frystingin er í og er m.a. haft eftir stjórnarformanni Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna að hann hafi sagt á þessum degi: Vonleysi manna í frystingunni er algert. Í Vísi daginn eftir birtist útdráttur úr ræðu hæstv. forsrh. þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er áreiðanlega ekki seinna vænna að haldinn er aukafundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og hefði hann mátt vera töluvert fyrr. Ég sagði við Jón Ingvarsson þegar hann bað mig að koma hingað að það væri miklu nær að ég fengi að spyrja ykkur ýmissa spurninga en þið mig. Þær sex vikur sem ég hef verið í Stjórnarráðinu við Lækjartorg hef ég lítið gert annað en að ræða við menn um ástand og horfur í útflutningsgreinum og skoða gögn sem mér hafa borist um þau mál og ég verð svartsýnni með hverjum degi sem líður.
    Ég hika ekki við að segja nú að við stöndum nær þjóðargjaldþroti en nokkru sinni fyrr og ég spyr sjálfan mig að því hvernig á því stendur að þetta lá ekki ljósar fyrir fyrr. Ég get e.t.v. afsakað sjálfan mig með því að ég hef setið inni í utanrrn. í einhverjum fílabeinsturni þar. En hvað um ýmsa aðra? Hvað um ykkur sjálfa? Hvað um bankana? Hvað um Þjóðhagsstofnun og fleiri?``
    Svo mörg voru þau orð, hæstv. forseti. Eins og fram kemur spyr hæstv. forsrh. fyrir rúmum mánuði, einum mánuði og fjórum dögum, alla aðra en sjálfan sig að því hvernig komið sé fyrir íslenskum atvinnuvegum. Nú hefur hann haft þessa skýrslu fyrir framan sig þessar tæpu fimm vikur og ég hef ekki orðið var við að það hafi mikið hreyft við ríkisstjórninni. Ég hef ekki orðið var við annað en enn þá hafi haldið áfram að fjara undan hraðfrystiiðnaðinum og ég hygg að vonleysið sé enn meira nú meðal manna í sjávarútvegi en var á þeim tíma sem aukafundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna var haldinn. Ég hygg því að það sé ærin ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. af þessu tilefni: Telur forsrh. að þjóðargjaldþrot blasi við að óbreyttri stjórnarstefnu?