Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Það mátti heyra að svar hæstv. utanrrh. fór eitthvað í taugarnar á hæstv. fjmrh. Hann kom ekki upp til að svara fsp. sem til hans var beint nú frekar en áður. Hann hefur ekki gert það og heldur því ef til vill þannig áfram að sýna Alþingi þá virðingu sem hann telur að eigi að sýna. En við hinir erum á öndverðum meiði.
    Ég vildi aðeins segja, einmitt eftir ræðu hæstv. utanrrh., að sú stefna sem vestrænar þjóðir hafa haft í öryggis- og varnarmálum hefur leitt til þess að þeir aðilar, sem hér var vikið að, hafa breytt sinni stefnu. Ég heyrði ekki betur en hæstv. utanrrh. hefði lýst því yfir að hann sem slíkur og þá fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hygðist standa að þeim málum eins og hefur verið gert áður. Þá er ég sannfærður um að það tekst að fá þá aðila sem ekki hafa viljað hlusta fyrr en nú á seinustu mánuðum til að fallast á það með hvaða hætti þeir verða að standa að þessum hlutum.