Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. beitir sömu vinnubrögðum í þessari umræðu og í umræðunum um skattamál og ríkisfjármál. Hann þyrlar upp moldviðri um allt annað mál en hér er til umræðu. Þetta eru sömu blekkingaraðferðirnar og við þekkjum og við höfum afhjúpað í þingsölum undanfarna daga. Það hefur ekki verið minnst orði á og er alls ekki til umræðu yfirlýsing Gorbatsjovs um fækkun í herafla Sovétríkjanna. Henni hljóta allir menn að fagna, en hún er bara ekki hér til umræðu. Ég hlýt að túlka viðbrögð hæstv. fjmrh. við upplýsingum utanrrh. sem óbein mótmæli við því sem utanrrh. hafði fram að færa og ég leyfi mér að fagna og taka undir. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að fjmrh. sé með þessum óbeina hætti að mótmæla stefnu síns eigins utanrrh. Við slíku heimilisböli er ekkert að segja. Við sem ekki eigum aðild að þessu stjórnarsamstarfi getum ekkert við því sagt, en það er allt í lagi fyrir almenning í landinu að fá vitneskju um það.