Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Þótt stefna í utanríkismálum sé ekki hér á dagskrá hefur verið að henni vikið óbeint og það gefur mér sérstakt tilefni til að taka af allan vafa um að á nýlegum ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel, 8. des. sl., var því einróma yfir lýst af hálfu ráðherra Atlantshafsríkjanna sextán að þeir fögnuðu eindregið einhliða ákvörðun Gorbatsjovs aðalritara um fækkun í venjulegum vopnabúnaði og herafla í Austur-Evrópu. En á þessum fundi var til umræðu tillögugerð, sem unnið hefur verið að sl. hálft ár og verður grundvöllur að afvopnunarviðræðum af hálfu vesturveldanna í Vín á næsta ári, þar sem af hálfu Atlantshafsbandalagsins var gengið mun lengra í afvopnunarátt. Tillögurnar voru ítarlegar, en þær miðuðu að þeirri grundvallarreglu að ekkert eitt ríki á meginlandi Evrópu hefði yfir að ráða mannafla undir vopnum eða venjulegum vopnum sem gæti verið meiri en teldist eðlilegt vegna eðlilegra varnarsjónarmiða. Í annan stað að ekkert ríki hefði herafla í landi annars ríkis sem væri umfram það sem skilgreina mætti vegna varnarsamstarfs og eftirlits. Þetta hefði t.d. falið í sér að ekkert ríki hefði yfir að ráða meira en 12 þúsund skriðdrekum á meginlandi Evrópu. Þar með hefði þeirri grundvallarreglu verið komið á að ekkert ríki hefði yfir að ráða venjulegum vopnabúnaði sem túlka mætti að væri fullbúinn til hernaðarlegrar árásar eða til leifturstríðs að óvörum. Það var rætt að ef þessar tillögur næðu fram að ganga væri þar með kannski stiginn stærsti áfanginn í afvopnunarmálum á meginlandi Evrópu frá stríðslokum og hefði bein tengsl við spurningarnar um tilvist skammdrægra kjarnavopna sem Atlantshafsbandalagið hefur því aðeins sett upp að hernaðaryfirburðir Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsríkjanna á sviði venjulegra vopna hafi verið gífurlegir.
    Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að þótt fram hafi komið í mínu svari að Ísland yrði að sjálfsögðu aðili að Atlantshafsbandalaginu og mun gegna þar öllum skyldum sínum hefur Atlantshafsbandalagið nú með þessum tillögum stigið mjög stórt skref fram á við í afvopnunarmálum, jafnframt fagnað frumkvæði Gorbatsjovs. Og við skulum sameiginlega láta í ljós þá von að á grundvelli þessara tillagna muni árið 1989 vonandi reynast það ár sem skiptir sköpum í afvopnunarmálum og yrði þá punkturinn aftan við allt tal um kalda stríð frá fyrri tíð.