Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Örstutt athugasemd, ég held að það eigi erindi inn í þessa umræðu, um tiltekna setningu í stjórnarsáttmálanum sem lýtur að endurmati og samskiptum við varnarliðið svonefnt --- herinn eins og ég kalla það. Sú setning vísar fyrst og fremst til þess að það skuli ekki vera frosið ástand í þessum samskiptum. Þau geti verið til endurskoðunar og endurmats á hverjum tíma. Eitt af því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi og er ágætt að uppfræða tiltekna hv. þm. um er að verulegur skriður er að komast á þá kröfu að þjóðir heimsins leggi niður allar herstöðvar á erlendri grund þannig að ekkert ríki hafi herstöð eða haldi úti her í annars landi. M.a. með þessa hreyfingu í huga, þá miklu hreyfingu sem er að komast á þetta stóra mál, er hollt að menn lesi þetta ákvæði stjórnarsáttmálans.