Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þetta er orðin æðiathyglisverð umræða. Hæstv. fjmrh. kallar, og þó ekki beint heldur undir rós og í gegnum Albaníu eins og það heitir, hæstv. utanrrh. kaldastríðsmann og hann flytji kaldastríðsræðu hér. Ég er sammála hverju einasta orði sem hæstv. utanrrh. hér hefur sagt og ég er þá kaldastríðsmaður eins og hann. En ég held að menn, sem eru að kalla okkur slíkt sem viljum sinna skyldum okkar við okkar samstarfsmenn í Atlantshafsbandalaginu og halda áfram þeirri stefnu sem Íslendingar hafa góðu heilli fylgt um áratugi, ættu að líta sér svolítið nær. Og að fara að tala um það núna að það sé bara Gorbatsjof sem sé að koma á friði í heiminum. Auðvitað vitum við öll hér inni að það er varnarmáttur vestursins sem hefur hindrað útþenslustefnu Rússa. Þetta liggur alveg á borðinu. Þetta skilur öll íslenska þjóðin.
    Ég vek athygli á því að ráðherra sem ekki var spurður í fsp. talaði a.m.k. í fimm mínútur áðan, þ.e. hæstv. fjmrh. Ég held að reglan um hvað menn megi tala lengi gildi einungis um þann ráðherra sem spurður er og þess vegna vona ég að mér leyfist að segja kannski tvö þrjú orð í viðbót.
    Það liggur fyrir að Alþb. er andvígt þeirri stefnu sem Ísland fylgir og það er alveg rétt hjá hæstv. samgrh. að það var loðið orðalag í stjórnarsáttmálanum, en þó að ég sé innilega ósammála mörgu í efnahagskenningum hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar allrar lýsi ég því hér og nú yfir að ég gleðst mjög yfir staðfestu hans í utanríkismálum sem kom fram í tveim ræðum hans. Það er kannski eina ástæðan til þess að ég hef einhvern vilja til að styðja þennan hæstv. ráðherra núna vegna þess að allt það sem hann hefur sagt í efnahags- og skattamálum hefur reynst rangt og það á þjóðin eftir að sjá. En ég fagna því að hann er mjög eindreginn í því sem mestu máli skiptir auðvitað, öryggi og varnir Íslands. ( Landbrh.: Gleymdu ekki Rockall-málinu.) Nei, hann skilur það held ég og ætlar að beita sér í því og meira að segja hæstv. forsrh. sjálfur tók málið upp við Margréti Thatcher í mjög góðri samvinnu við mig og eftir umræður við mig og hæstv. utanrrh. núverandi. Í utanríkismálunum eru þeir ekki svo slæmir. Þeir eru ekki svo slæmir í utanríkismálunum. Það er hins vegar hv. friðarpostuli og fjmrh. sem er núna að friða Ísland af því að hann getur ekki lengur friðað heiminn. Og hann er alkunnur af því að vera alls staðar friðarins engill, bæði í sínum flokki og annars staðar.