Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Mig langar til að segja að ef það er kaldastríðsviðhorf að vilja viðhalda mestu mannréttindum á vesturlöndum og bestu lífskjörum í heimi get ég alveg fallist á að vera kaldastríðsmaður ef hæstv. fjmrh. vill endilega nota svoleiðis orð um fólk sem vill viðhalda mestu mannréttindum í heimi og bestu lífskjörum í heimi.
    Ég held að eitt af grundvallaratriðum okkar sé líka að bera virðingu fyrir skoðunum náungans. Það er eitt af grundvallaratriðum vestrænna siðaðra ríkja.
    Auðvitað fagna allir friðelskandi menn þeirri afvopnunarstefnu sem leiðtoginn fyrir austan járntjald hefur tekið. Það fagna því allir. Allur heimurinn fagnar því.
    Og ég verð að segja það varðandi stefnu hæstv. utanrrh. að mér finnst hann hafa staðið sig vel í sínu starfi og mér mundi finnast hæstv. fjmrh. trúverðugri boðberi friðarins ef hann notaði ekki alveg jafnhrokafullan málflutning á hendur náunganum og hann gerir stundum.