Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Hv. formaður fjh.- og viðskn. hefur réttilega lýst aðdraganda þess að þetta mál er nú tekið fyrir með þessum hætti í hv. Ed. Við höfum fjallað mjög mikið um þetta mál, þó ekkert síðustu tvær vikurnar eða svo því að málið var að allra augsýn mjög erfitt bæði lagalega og raunar kom líka í ljós að þarna yrði um miklar fjárhæðir að ræða fyrir sjóði sem búa við mikinn fjárskort, eins og t.d. Lánasjóður sveitarfélaga. Hann hefði orðið að borga 95 millj. kr. í skatta ef hann hefði verið skattlagður með þessum hætti. Aðrir sjóðir eins og Orkusjóður hefðu þurft að borga kannski þriðjung eða helming af framlaginu úr ríkissjóði aftur til baka. Jafnvel Hafnabótasjóður hefði orðið að greiða fé til ríkisins. Þetta var orðin hálfgerð kómedía á pörtum, en að vísu hitnaði í gærkvöld og fram eftir nóttu alla vega svolítið í sumum út af þessu og þar á meðal mér, en í mjög góðu samkomulagi við hv. formann nefndarinnar og hæstv. fjmrh. Um það er lauk gat ég fyrir mína parta fallist á að málið yrði afgreitt með þeim hætti sem meiri hl. nefndarinnar leggur nú til. En ég mun, alla vega persónulega, láta það afskiptalaust við afgreiðsluna hvort þetta er gert. Það má segja að það séu viss rök fyrir því að skattleggja veðdeildirnar úr því að bankarnir sem eiga þær eru skattlagðir. Það væri kannski hægt að misnota það að setja meiri tekjur á veðdeildir en eðlilegt væri. Þetta snertir þó fyrst og fremst veðdeild Landsbankans og þar er svo komið að veðdeild Landsbankans gerir nákvæmlega ekki neitt nema sinna störfum fyrir húsnæðismálastjórn þannig að þeir skattar sem legðust á veðdeild Landsbankans eru í raun og veru skattar á Húsnæðisstofnun ríkisins eins og það er nú gáfulegt að skattleggja þá stofnun. En þarna er ekki um neinar upphæðir sem máli skipta að ræða eins og veðdeildin er rekin í dag. Það gæti verið að hún þyrfti að borga nokkrar milljónir kr. sem er þá bara skerðing á fé Húsnæðisstofnunar. Svona til þess að hafa þá samræmi í hlutunum af því að við erum alltaf að berjast fyrir því að styrkja Húsnæðisstofnun og ýmiss konar atvinnuvegasjóði að þá sé allt í lagi kannski að hafa smáskattheimtu til baka af Húsnæðisstofnun eins og af sjóðunum. Þess vegna læt ég þetta afskiptalaust og sætti mig við þessa niðurstöðu.