Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði áðan. Að því leyti sem veðdeild Landsbankans verður eignarskattsskyld hlýtur það auðvitað að falla á Húsnæðisstofnun. Auðvitað fer Landsbankinn ekki að reka veðdeildina þannig að hann hafi af því skaða og fjárútlát. Það gefur auga leið. Og um leið og búið er að skattleggja veðdeildina breytist auðvitað eðli hennar.
    Ég vil aðeins segja út af ummælum frsm. meiri hl. nefndarinnar að ég held að ég hafi ekki talið neitt eðlilegt í sambandi við þessa skattlagningu. Sannleikurinn er sá að það er búið að þyngja svo tekju- og eignarskatt, ekki aðeins á fyrirtækjum heldur líka á bönkum og sparisjóðum, að það er ekki lengur hægt að tala um að þessi starfsemi geti gengið með eðlilegum hætti miðað við þau skattalög sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir sem sennilega eru þau ósvífnustu og hæstu sem sett hafa verið hér á landi frá örófi alda. Sérstaklega á það þó við varðandi sparisjóðina. Það kom glöggt fram í viðtali sem við áttum við Sigurð Hafstein, framkvæmdastjóra Sambands sparisjóðanna, að sparisjóðirnir eiga æ erfiðara með að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru um eigið fé slíkra stofnana. Sparisjóðirnir eru í þeirri stöðu að þeir geta ekki aukið eigið fé sitt með hlutafjárframlögum og af þeim sökum er það svo eða var a.m.k. til skamms tíma að sparisjóðir voru ekki skattlagðir í nágrannalöndum okkar vegna þess sérstaka eðlis þeirra, a.m.k. ekki í Noregi. Ég hygg því að ef það eigi að tala um að eitthvað sé eðlilegt í sambandi við skattlagningu á banka og sparisjóði sé a.m.k. eðlilegt að sparisjóðirnir séu undanþegnir tekju- og eignarskatti vegna þess hvernig þeir eru upp byggðir, vegna sögu þeirra og vegna þess hversu nálægir þeir eru byggðunum á hverjum stað vegna þess að þeir eru raunverulega í eigu fólksins til ráðstöfunar fyrir það. Þess vegna, ef ég væri spurður hvað væri eðlilegt, mundi ég segja að það væri eðlilegt að afleggja skatt á sparisjóði, hvað sem er um ríkisbanka eða hlutafélagabanka sem geta tryggt eigin fjárstöðu sína með hlutafjárframlögum.
    En hitt er auðvitað alveg óeðlilegt að á sama tíma og ríkið ætlast til þess að eigið fé fyrirtækjanna, banka og sparisjóða, sé aukið, á sama tíma og ríkisstjórnin lætur það í veðri vaka að óþarfi sé að hafa ríkisábyrgðir á bankaviðskiptum skuli ríkisstjórnin nota hvert tækifæri til að grafa undan þessari starfsemi þannig að fyrirsjáanlegt er að þessar stofnanir verða æ verr undir það búnar að geta staðið sig í einhverjum samanburði við þær kröfur sem gerðar eru til þessarar starfsemi í öðrum löndum. Við erum því með frv. að færast fjær því en áður að geta afnumið ríkisábyrgðir af venjulegum bankaviðskiptum. Við erum að færast fjær því að hægt sé að minnka vaxtamun og við erum að færast fjær því að koma við sparnaði í bankarekstri.