Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði áðan og ég var raunar búinn að segja áður, að þetta er lítið mál að því er veðdeild Landsbankans varðar, en þó er það þannig að ef skattar leggjast á hana er það alveg ljóst að breytt verður samningum við húsnæðismálastjórn til að bæta veðdeildinni það upp. Það lá fyrir frá fulltrúa þeim sem kom frá Landsbankanum að samningar þeirra við húsnæðismálastjórn væru í endurskoðun, færu eftir kostnaðarliðum. Þess vegna lendir sá skattur sem hugsanlega leggst á veðdeildina á húsnæðismálastjórn, það er óbreytt. Ég man ekki betur en að eignir veðdeildarinnar séu talsvert miklar. Ég þori ekki að fullyrða um það, en ég held að þær hafi skipt nokkrum tugum milljóna, jafnvel 50 milljónum. Það kemur þess vegna verulegur eignarskattur þar í öllu falli þó að tekjuskattur yrði kannski lítill. En það stendur óbreytt að þeir skattar sem á veðdeildina mundu leggjast færast beint á kostnað stofnunarinnar og þar með yfir á útgjöld húsnæðismálastjórnar.