Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég skal aðeins hafa um þetta mál örfá orð, en vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið tel ég nauðsynlegt upp á framhaldið að rifja aðeins upp forsögu þessa máls.
    Þannig er mál með vexti að bankar og sparisjóðir voru skattlagðir að því er mig minnir 1981 eða 1982 og þá þótti eðlilegt að veðdeildir bankanna yrðu jafnframt skattlagðar. Hins vegar var við það mikil andstaða, eins og vill verða þegar breytingar eru gerðar á skattamálum, og það var frá því horfið á þeim tíma sem átti að sjálfsögðu ekki að gera. Síðan var byrjað að undirbúa skattlagningu annarra fjármálastofnana og ég hygg að það sé rétt munað hjá mér að í tíð hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem fjmrh. kom þetta frv. fyrst inn í ríkisstjórn. Þar var m.a. gert ráð fyrir því að Ríkisábyrgðasjóður borgaði tekjuskatta og eignarskatta sem ég gat ekki skilið. Síðan varð hv. þm. Þorsteinn Pálsson fjmrh. Þá kom þetta frv. aftur inn í ríkisstjórn óbreytt. Þar næst varð hæstv. núv. utanrrh. fjmrh. og þá kom frv. enn á ný inn í ríkisstjórn óbreytt. Í tíð hæstv. núv. fjmrh. kom þetta frv. enn á ný til umfjöllunar og var flutt á hv. Alþingi.
    Sannleikurinn er sá að um það hefur verið breið samstaða á Alþingi að það sé gætt samræmis í skattlagningu fjármálastofnana. En spurningin er aðeins hvar eigi að draga mörkin. Auðvitað verða sparisjóðir að vera skattskyldir eins og aðrir bankar alveg með sama hætti og samvinnufélög eru t.d. skattskyld með sama hætti og verslanir og skiptir að sjálfsögðu ekki máli hvort viðkomandi stofnanir eru nær fólkinu eða ekki eins og mátti skilja á hv. þm. Halldóri Blöndal.
    Ég tek hins vegar undir að það þarf að vinna þetta mál mun betur til að draga rétt mörk. Það eru ýmsar fleiri fjármálastofnanir í okkar þjóðfélagi. M.a. má með sanni segja að lífeyrissjóðir landsins séu á vissan hátt fjármálastofnanir en ég býst ekki við að neinum detti í hug að skattleggja þá. Sú breyting sem nú er gerð er eðlilegt framhald af því sem gert var 1982. Hins vegar þarf að eiga sér stað betra undirbúningsstarf og þar má ekki eingöngu saka núv. ríkisstjórn um að hafa ekki staðið nægilega vel að þessu máli því að sannleikurinn er sá að það hefur verið unnið að þessu máli allar götur frá 1982 og líklega verður unnið að því betur í framtíðinni þannig að málið komi betur undirbúið inn á hv. Alþingi næst.