Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Herra forseti. Um þetta leyti fyrir jólin í fyrra hljómaði í eyrum okkar jólasálmur og það voru þrjár laglínur og þrjár nótur: einföldun, réttlæti og skilvirkni. Við kvennalistakonur heyrðum reyndar þá strax að nóturnar voru nokkuð mattar og spái ég því að lagið hafi verið sungið í moll en alls ekki í dúr.
    Sú lækkun sem þá var gerð á vörugjaldi og tollum var réttlætt með því að matarskattur var lagður á um svipað leyti. En nú kveður við annan tón og nýja tóntegund með nýjum hæstv. fjmrh. Sem tekjulind hefur hann nú fundið hinar ýmsu nauðsynjar sem heimilin þurfa á að halda og hefur hugsað sér að leggja að nýju vörugjald á ýmsar tegundir af neysluvörum sem áður höfðu alls ekki neitt vörugjald. Þetta gerist á tímum launafrystingar sem er búin að standa yfir í nokkra mánuði og enginn reyndar veit svo sem hvað um hana verður, hverjar verða næstu efnahagsráðstafanir þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég lýsti hug okkar kvennalistakvenna nokkuð ítarlega hér seint í gærkvöld til þessa frumvarps og ætla ekki að fara út í smáatriði þess að þessu sinni. En ég tel nauðsynlegt að skýra aðeins, vegna þess að á eftir munum við fara út í atkvæðagreiðslu um málið og til þess að tefja ekki þá atkvæðagreiðslu með því að biðja um alls kyns sundurliðun, nokkur atriði og þá um leið hvernig og hvers vegna við munum greiða atkvæði eins og við munum gera.
    Sumt innan 1. gr. er að fá á sig vörugjald þar sem ekkert vörugjald var. Vil ég þar nefna t.d. byggingarvörur, bílavarahluti og ýmislegt fleira. Ég nefndi það sérstaklega í ræðu minni hér í gær að ég tel vænlegra að hvetja fólk til þess að nota bílana lengur en nú er gert vegna þess að það fylgja því ýmsir ókostir og mikill viðskiptahalli að flytja inn allan þennan fjölda bíla sem nú er gert. Þess vegna held ég að hækkun á varahlutum í bíla sé afar vafasöm.
    Ef við hefðum ráðið einhverju um vistun númera í 1. gr. hefðum við greitt atkvæði allt öðruvísi en við munum gera á eftir. Við erum t.d. hlynntar lækkun vörugjaldsins á ýmsum heimilistækjum úr 14% í 9%, en eins og ég sagði andvígar því að nú skuli leggjast nýr stofn á ýmislegt annað. Við hefðum hins vegar hugsað okkur að geta haldið 14% á ýmsum öðrum vörum og vil ég þá nefna sérstaklega vörur sem eru undir vöruflokknum nr. 17, sælgæti og sætindi sem ég lít ekki á að séu hinar daglegu nauðsynjavörur hvers heimilis. Við fögnum því reyndar líka að vörugjald á kakó skuli lækka og værum til í að styðja það, en ég sé alls ekki rökin fyrir því að setja síðan sérstakan sykurskatt á kakó, 16% sykurskatt á kakó sem er ósæt vara. Það eru að mínu mati engin rök fyrir því hvernig þessi listi er settur saman og það sem maður gæti þess vegna hugsað sér að styðja undir a-liðnum gæti maður síðan alls ekki stutt undir b-liðnum og kann það nú að hljóma nokkuð undarlega. En eins og ég sagði þá sjáum við enga sérstaka ástæðu til þess að lækka vörugjald á sælgæti úr 14% í 9% og erum á móti því. Hins vegar værum við til í að styðja

sérstakan sykurskatt á þá vöru.
    Það hefur verið nefndur hér ósætur ávaxtasafi. Við erum að sjálfsögðu hlynntar því, sem fram kemur í 1. gr. undir a-liðnum, að lækka vörugjald á ósætum ávaxtasafa úr 14% niður í 9%, en við getum með engu móti fallist á að samþykkja síðan að leggja 16% sykurskatt á þennan ósæta ávaxtasafa.
    Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umræðu, eins og ég sagði áðan, til þess að tefja ekki um of umræðuna. Mér finnst rétt að geta þess að lokum að það er algerlega óverjandi á tímum launafrystingar að leggja slík aukagjöld á nauðsynjar heimilanna. Fyrst ég fór að minnast á ávaxtasafann ósæta vil ég líka láta þess getið að í landinu búa mörg börn sem hafa ofnæmi fyrir mjólk og það eru mörg heimili sem af þeim sökum þurfa að nota mjög mikið af þessum ávaxtasafa.