Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt viðbótarinnlegg frá umræðunni sl. nótt. Það er sérkennilegt ástand í þessu húsi þessa dagana á sama tíma og fjölskyldurnar í landinu eru að undirbúa jólahátíðina, við sjáum ys og þys á götunum ef við höfum yfirleitt tíma til að líta út um gluggana. Hér inni erum við í fílabeinsturni og ég er ansi hrædd um að hæstv. ríkisstjórn geri sér litla grein fyrir því hvaða áhrif það hefur á almenning í landinu sem hér er að gerast. Það má kannski segja að það bjargi henni í bili að fólk er svo upptekið af jólaundirbúningnum að það fylgist ekki náið með hvað efnislega er verið að gera innan dyra á hv. Alþingi.
    En hér fáum við í hendurnar hvert skattafrv. af öðru sem eru skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til þjóðarinnar um það sem fram undan er. Allt ber að sama brunni. Það er aðför að heimilunum í hverju einasta frv. sem hér er lagt fram. Það er aðför að íslenskum fyrirtækjum, að íslenskum atvinnurekstri og að íslenskum iðnaði, það frumvarp sem hér er verið að fjalla um.
    Þegar matarskatturinn var lagður á á síðasta þingi voru tollar og aðflutningsgjöld lækkuð til að milda þau áhrif. Nú er sú lækkun tekin til baka og um leið horfið af braut einfaldleikans sem hæstv. þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson talaði svo fjálglega um þegar það mál var hér til umfjöllunar.
    Við getum rifjað það upp sem gerðist þegar þetta frumvarp sá dagsins ljós á hv. Alþingi. Þá ruku margir upp til handa og fóta og fóru að versla, fóru að kaupa heimilistækin sem fyrir lá að áttu að hækka, 20% vörugjald átti að leggjast á heimilistækin og yfirleitt allt til heimilanna í landinu. Það var farið að hamstra, fólk varð sér úti um peninga, notaði krítarkortin og vörurnar seldust upp. Það lýsir best ringulreiðinni innan ríkisstjórnarinnar þegar hún sá hvað var að gerast, fór að endurskoða frumvarpið og lækkaði síðan prósenturnar niður þannig að nú er búið að plata fjölda fólks til að kaupa þessa vöru á hærra verði því að nú mun hún lækka vegna 9% skattsins sem á að koma í staðinn fyrir upphaflega 14%.
    Mér þótti rétt, hæstv. forseti, að benda á þetta sem dæmi um þá ringulreið sem hér ríkir. Við sjálfstæðismenn erum að sjálfsögðu á móti þessu frumvarpi og leggjum til að það verði fellt.