Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Kvennalistakonur telja rétt að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og stuðli að auknu heilbrigði þjóðarinnar með aðgerðum sínum. Best er að þær aðgerðir séu samræmdar og taki mið af almennri viðurkenndri stefnu í heilbrigðismálum. Nú hefur tvisvar verið lögð fyrir Alþingi íslensk heilbrigðisáætlun sem leggur megináherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í heilbrigðismálum. Hluti þessarar áætlunar varðar manneldismál og það er á valdi stjórnvalda að stýra neyslu að einhverju leyti með verðlagningu. Sykurát er óhóflegt meðal Íslendinga og veldur m.a. óvanalega miklum tannskemmdum barna auk annarra sjúkdóma. Þó að hér sé því miður ekki um samræmdar aðgerðir stjórnvalda að ræða, sem væri æskilegra, er þó hér sýnd viðleitni í rétta átt. Kvennalistakonur eru þess vegna hlynntar sérstakri skattlagningu á sætindi og gosdrykki, en við viljum þó undanskilja ávaxtaþykkni og ósykraðan ávaxtasafa. Nefna má að sum börn og fullorðnir hafa ofnæmi fyrir mjólk og mjólkurvörum og þótt þeim væri eflaust jafnhollt að drekka vatn í stað ávaxtasafa er þó líklegra að þeim hugnist ávaxtasafi betur. Því segi ég nei.