Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 365 liggur fyrir nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Um þetta mál var fjallað á fundi nefndarinnar í morgun. Þangað komu m.a. til viðræðna við nefndina Ólafur Davíðsson frá Félagi ísl. iðnrekenda, Víglundur Þorsteinsson, formaður þess félags, Sigurður B. Stefánsson hagfræðingur, Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóri og frá fjmrn. Bolli Þór Bollason, Lárus Ögmundsson, Maríanna Jónasdóttir og Guðrún Ásta Sigurðardóttir.
    Það fóru fram töluverðar umræður um frv. á fundi nefndarinnar og sýndist þar auðvitað mönnum sitt hvað, en hér er eins og í vörugjaldsfrv. um að ræða eitt af tekjuöflunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar og forsendu fjárlaga og þó menn greini á um stig skattheimtunnar, hversu langt eða skammt þar skuli ganga, ætla ég ekki að fara út í þá sálma nér.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem flutt er á þskj. 366. Skylt er að geta þess þar sem þetta mál þarf nú aftur að fara til Nd. að samráð hefur verið haft við nefndarmenn þar og sýnist ekki vera ágreiningur um þessa breytingu þar, enda er hér um ívilnandi ákvæði að ræða sem þó hafa ekki tekjutap sem neinu nemur í för með sér fyrir ríkissjóð heldur er fyrst og fremst um að ræða lagfæringu í skynsemisátt og til bóta. En ég skal í örstuttu máli, herra forseti, gera grein fyrir því í hverju breytingin er fólgin.
    Hún er fólgin í því að fella átti niður úr lögunum ákvæði sem þar var þess efnis að vélar og tæki að verðmæti innan við rúmlega 100 þús. kr., upphaflega um 80 þús. kr., þurfi ekki að eignfæra og fyrna vegna þess að mörkin þarna á milli eru oft býsna óljós, þ.e. hvað á að ganga langt niður, þannig að ekki þurfi t.d. maður sem kaupir sér dýptarmæli eða eitthvað því um líkt í bát, sem kostar 20 þús. kr., að eignfæra það og fyrna eftir reglum skattalaga heldur taki þær reglur skattalaga um eignfærslu og fyrningu fyrst gildi þegar verðmæti hlutarins fer upp fyrir þessa ákveðnu upphæð. Einhverra hluta vegna hafði þetta verið fellt brott, en mjög sterk rök hníga að því að taka þetta ákvæði upp aftur og það er lagt til að svo verði gert.
    Hin brtt. er sú að rýmkaðar verði nokkuð frá því sem áður var, þ.e. úr 15% í 20%, afskriftir af skrifstofuvélum og tækjum og þá einkum tölvum. Það er sem sagt ívilnandi ákvæði líka. Auðvitað má margt um þetta segja. Ástæða hefði verið til að ganga þar lengra, en þetta var einfaldlega það sem samkomulag varð um við hæstv. fjmrh. og er gert með hans samþykki. Báðar þessar breytingar hníga í skynsemisátt, eru ívilnandi og til bóta og því er lagt til að þær verði samþykktar.
    Undir þetta nál. skrifa, auk þess er þetta mælir, Margrét Frímannsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Jóhann Einvarðsson.

    Meiri hl. nefndarinnar leggur sem sagt til, herra forseti, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem tilgreindar eru á þskj. 366.