Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Í Egils sögu segir um Harald hárfagra: ,,Haraldur konungur var mjög gjörhugull.`` Þar segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Haraldur konungur eignaðist í hverju fylki óðul öll og allt land, byggt og óbyggt, og jafnvel sjóinn og vötnin og skyldu allir búendur vera hans leiglendingar, svo þeir er mörkina orktu og saltkarlarnir og allir veiðimenn, bæði á sjó og landi, þá voru allir þeir honum lýðskyldir. En af þessi áþján flýðu margir menn af landi brott.``
    Ég hygg, hæstv. forseti, að líkingin með Haraldi konungi lúfu og hæstv. fjmrh. sé mjög mikil og má raunar segja um þá báða að eftir að þeir komust til valda voru báðir hárprúðir. ( Gripið fram í: Og með greiðsluhalla.)
    Hæstv. forseti. Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að það er rétt sem segir í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. að skattfrelsismörk einstaklinga lækka samkvæmt frv. frá því sem verið hefði í janúar nk. samkvæmt gildandi lögum úr 50.681 kr. í 47.513 kr. Þetta var staðfest af embættismönnum þannig að það liggur ljóst fyrir að það sem hæstv. fjmrh. sagði um hið gagnstæða á fundinum í nótt voru vísvitandi rangfærslur. Það voru í rauninni blekkingar sem hann bar á borð fyrir deildina til að breiða yfir að með þessu tekjuskattsfrv. er gengið lengra í skattlagningu á þá sem lægstar hafa tekjurnar en áður hefur verið og gert var á þessu ári. Þegar ég spurði skattfróða menn, sem mættu á fundi nefndarinnar, að því hvort þeir héldu að tekjuskattur hefði einhvern tíma verið hærri hér á landi, tekjuskattur á einstaklinga, svöruðu þeir því til að ef svo væri hefði það verið á kreppuárunum eða m.ö.o. á blómatíma framsóknar og Alþfl. Það er dæmigert að þegar þessir flokkar hafa nú náð saman með systurflokki sínum, Alþb., skuli þetta sama endurtaka sig, enda er það í samræmi við þann metnað fjmrh. að hækka æ meir skattana því lengur sem hann situr í stólnum og hefur hann nú náð því marki að skattaáþjánin í landinu er orðin meiri en á þeim tíma í sögu fullveldis okkar Íslendinga þegar lífskjör voru verst, atvinnuleysið mest og almenn vesöld eftir því.
    Ég hlýt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að með því að taka upp skattvísitölu í staðinn fyrir þá viðmiðun sem nú er í gildandi lögum um lánskjaravísitölu var hæstv. fjmrh., eins og stundum er sagt, að grugga vatnið, kasta steini í forarpollinn til að grugga upp vatnið til þess að ekki sæist til botns. Hann var að reyna að villa um fyrir fólki, en á bak við allt þetta lá það eitt að reyna að koma í veg fyrir eðlilegan samanburð á skattbyrði milli ára. En það liggur nú sem sagt fyrir frá embættismönnum fjmrn. að það er búið að lækka skattleysismörkin, það er búið að skattleggja það fólk sem hefur þurftartekjur. Það fólk sem er með lægstar launatekjur í landinu á nú að greiða tekjuskatt til ríkisins. Þetta er mikil afturför, en dæmigerð fyrir þá ríkisstjórn sem hér situr.

    En það er ekki aðeins í þessu efni sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin eru að villa um fyrir fólki. Í skýringum við 8. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Skv. 4. gr. laga nr. 2/1988, sem fjalla um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var hámarkstillag í fjárfestingarsjóð lækkað úr 40% í 30%. Í greinargerð með frv. að þeim lögum var getið að um væri að ræða fyrsta skrefið á þeirri braut að fella heimild þessa til frestunar á skattgreiðslum niður að fullu. Í samræmi við þetta markmið er í þessari grein lagt til að hámarkstillagið í fjárfestingarsjóð lækki úr 30% í 15% af skattstofni.``
    Svo mörg voru þau orð. Nú er hálferfitt að hafa ekki hæstv. fjmrh. hér til þess að hann geti staðið fyrir sínu máli þegar hann með þessum hætti er að gefa í skyn að skattastefna síðustu ríkisstjórnar hafi verið öfug við það sem hún raunverulega var og gerir það í opinberu plaggi. Við getum kannski fyrirgefið ef hæstv. fjmrh. hefði gert þetta í almennum inngangi eða greinargerð. --- Ég sé að hæstv. fjmrh. er hér í hliðarherbergi og heyrir hvað ég segi. --- Ef hæstv. fjmrh. hefði kannski gert þetta í inngangi að greinargerð fyrir breytingum á frv. þannig að menn sæju að þetta væri almennt pólitískt snakk. En þegar orð af þessu tagi eru felld inn í skýringar við einstaka grein frv. hlýtur maður að líta svo á að það sem þar stendur sé óumdeilanlegt, það sé rétt, þar sé fullum sannleika fram haldið, en eins og við munum segir íslenskt skáld: Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi. Og þessi orð í greinargerð frv. eru hálfsannleikur.
    Staðreyndin er sú að við höfum mjög rætt um það sjálfstæðismenn á liðnum árum og höfum haldið því fram að það væri heilbrigðara að lækka tekjuskatt fyrirtækja og þannig draga úr skyndifjárfestingu eða ótímabærri fjárfestingu sem einungis er stofnað til í því skyni að komast hjá óhæfilegri skattheimtu. Það getur verið undir mörgum kringumstæðum að slík flýting á fjárfestingu sé arðbær út af fyrir sig fyrir viðkomandi fyrirtæki þegar skattheimtan er óbærileg. Hins vegar er alveg ljóst að ef óréttlát skattheimta ríkisins er farin að hafa afgerandi áhrif á hvernig einstök fyrirtæki verja sínum hagnaði hlýtur það til lengri tíma litið að hafa í för með sér mikið óhagræði og draga
úr hagvexti. Það var af þessum sökum sem við sjálfstæðismenn vildum lækka tekjuskatt á fyrirtækjum smátt og smátt og töldum að jafnframt væri unnt að draga úr varasjóðstillaginu vegna þess að það hafði þá ekki sama tilgang og áður.
    En nú er fróðlegt að fá að vita hver er raunveruleg hækkun tekjuskatts á fyrirtækjum í landinu ef tekið er tillit til þess að meðalhækkun verðbólgu frá árinu 1986 til 1987 var 25,5% en búist er við því að meðalhækkun verðbólgu milli áranna 1988 og 1989 verði 12%. Að gefnum þessum forsendum liggur fyrir og er staðfest af embættismönnum fjmrn. að raunverulegt skatthlutfall, það sem er kallað á vondu máli effektíft skatthlutfall, hækkar úr 33,6% í 42,6% af hagnaði fyrirtækjanna. Þetta er ekkert smátt. Og þegar ofan á þetta bætast auknar skattaálögur á

fyrirtækin vegna hækkunar eignarskatts, vegna hækkunar skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og fleira er ljóst að enn minna verður eftir. Það er einmitt skattheimta af þessu tagi sem gerir það óhjákvæmilegt að hafa hámarkstillög í fjárfestingarsjóð rýmileg þannig að miðað við þessa háu skattprósentu hefði þvert á móti verið nauðsynlegt að hækka hámarkstillagið á ný upp í 40% sem er í samræmi við háskattapólitík núverandi ríkisstjórnar.
    Ég vil leggja áherslu á það, herra forseti, að með því að draga svo úr fyrningum sem gert er í þessu frv. og með því að lækka heimild til tillags í fjárfestingarsjóð um helming er verið, eins og formaður Félags ísl. iðnrekenda sagði á fundinum í dag, að draga úr framþróun og nýsköpun í íslenskum atvinnugreinum. Ólafur Davíðsson, framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda, sem ég hygg að við hljótum öll að bera mikið traust til, og með hliðsjón af hans reynslu og með hliðsjón af þeim trúnaði sem þessi hagfræðingur hefur, bæði hér á landi og erlendis, er náttúrlega óhjákvæmilegt fyrir alþm. að hlusta á það sem hann segir, hann sagði á fundi nefndarinnar m.a. að fyrningarákvæði sem kannski kunna að hafa verið rýmileg fyrir fimm árum séu það ekki í dag vegna þess að endingartími tækja og véla sé sífellt að styttast vegna tækninýjunga sem koma fram ég vil segja nær því á hverjum degi og óhjákvæmilegt er fyrir fyrirtæki sem vilja standa sig að fylgjast með og tileinka sér hin nýju vinnubrögð á hverjum tíma. Ég hygg því, virðulegi forseti, að það sé óhrekjanleg staðreynd, það sé sannmæli að með þessari skattalagabreytingu er verið að vinna á móti nýsköpun í atvinnugreinum. Með þessum breytingum er sérstaklega vegið að framleiðsluatvinnuvegunum, ekki aðeins með fyrningarákvæðunum, ekki aðeins með því að minnka framlagið í varasjóðinn heldur líka með því að hækka eignarskattinn, en vitaskuld eru það fyrst og fremst framleiðsluatvinnuvegirnir sem þurfa á mikilli fjárfestingu og miklu eigin fé að halda. Ef við viljum síðan íhuga hvar framleiðsluatvinnuvegirnir hafa fyrst og fremst búið um sig, hvar þau fyrirtæki eru, þá eru þau úti á landi. Það er því mikið öfugmæli í því annars smekklega blaði Tímanum, sem á það til að koma manni á óvart eð fallegum forsíðum, þegar það heldur því fram að þessi ríkisstjórn sé sérstaklega og einkanlega ríkisstjórn fyrir strjálbýlið eða landsbyggðina. Þessi ríkisstjórn hefur þvert á móti knúið fram á Alþingi hverja aðgerðina á fætur annarri þar sem sérstaklega er vegið að atvinnulífi landsbyggðarinnar eða þá með sofandahætti og úrræðaleysi dregið við sig nauðsynlegar aðgerðir í atvinnumálum.
    Sú skýring sem í grg. er gefin við 7. gr. frv. vakti athygli mína, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Það hefur tíðkast nokkuð að hlutafélög veiti eigendum sínum eða stjórnendum veruleg peningalán, oftar en hitt á vildarkjörum, vaxtalaust og óverðtryggt. Þegar áhrif verðbreytinga á eignir og skuldir félags eru metin myndar þessi neikvæða ákvöxtun á peningaeign fyrirtækja stofn til gjaldfærslu. Telja

verður óeðlilegt að félög geti lækkað skattskyldar tekjur sínar með lánafyrirgreiðslu af þessu tagi. Því er lagt til í þessari grein að lán hlutafélaga til hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga teljist ekki sem eignir við útreikning á verðbreytingarfærslu samkvæmt þessari grein.``
    Með hliðsjón af þessari skýringu í grg. frv. spurði ég ríkisskattstjóra að því hvort þetta ákvæði tæki einnig til samvinnufélaga, en eins og við vitum hefur það tíðkast hjá ýmsum samvinnufélögum á mismunandi tímum og mismunandi stöðum á landinu að þau láni stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum peningalán, oftar en hitt á vildarkjörum, vaxtalaust og óverðtryggt. Ríkisskattstjóri sagði mér að þótt hið skattalega hagræði væri tekið af hlutafélögunum skyldu kaupfélögin og samvinnufélögin halda því skattalega samræmi sem þau hafa haft þó þau hafi með þessum hætti dulbúið launagreiðslur til sinna stjórnenda. Ég spurði ríkisskattstjóra að því hvort hann teldi að það samræmdist almennum skattasjónarmiðum og þeim grundvallarreglum sem lagðar væru í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að láta að þessu leyti aðrar reglur gilda um skattalegt hagræði samvinnufyrirtækja og hlutafélaga til að hygla sínum mönnum. Ríkisskattstjóri sagði að það væri ekkert í stjórnarskránni sem að hans hyggju bryti á móti því. Á hinn bóginn kom það fram áðan í ræðu hæstv. sjútvrh. að hann teldi að hinar sömu skattareglur ættu að gilda um verslun sem rekin væri
af hlutafélögum og verslun sem rekin væri af samvinnufélögum.
    Eins og þingdeildarmönnum er kunnugt vil ég mikið gera fyrir hæstv. sjútvrh. og af þeim sökum höfum við í minni hl. fjh.- og viðskn. flutt brtt. á þskj. 373 og er orðalagið í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra þannig að það tekur tvímælalaust af allan vafa um að hið sama skal gilda um hlutafélög og samvinnufélög hvað varðar skattlagningu vegna lána sem þessi fyrirtæki, sem eru hlutafélög eða samvinnufélög, veita stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum sínum. Ég trúi ekki öðru en meiri hlutinn fallist á þessa brtt. Meiri hl. hefur hvort eð er lagt fram brtt. við frv. þannig að það verður á ný að koma til Nd. Auðvitað getur mismunun af þessu tagi ekki viðgengist. Það er spilling að halda henni inni. Það er spilling að eitt félagsform skuli geta hyglað sínum mönnum eingöngu en önnur ekki. Auðvitað á ekkert félagsform að geta gert það. Það er þess vegna lagahreinsun að ná þessu út. Ég þarf svo ekki að útskýra þessa hlið málsins frekar.
    Ég vil hins vegar segja almennt um skattlagningu á fyrirtækjum að það kom fram hjá þeim skattfróðu mönnum sem fjh.- og viðskn. fékk til ráðuneytis að kannski einhvern tíma eftir stríðið hefði skattbyrði fyrirtækja verið þyngri en nú. Það er með öðrum orðum svo að síðasta mannsaldur hefur að dómi allra þessara manna aldrei verið jafnþung skattbyrði á fyrirtækjunum og stefnt er að með þessu frv. Þó liggur fyrir að hver einasti maður í ríkisstjórninni gerir sér grein fyrir því að atvinnuvegirnir eiga nú við

óvenjumikla erfiðleika að stríða og ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að það stefnir hér að miklu atvinnuleysi og atvinnuöryggi er víðs vegar um landið ekkert. Samt sem áður leyfa þessir menn sér að efna til meiri skattbyrðar, íþyngingar skatts á fyrirtækjum landsins en hefur þekkst a.m.k. í heilan mannsaldur og eftir því sem þeir segja hefur skattbyrðin á einstaklingana ekki verið meiri a.m.k. tvo mannsaldra eða frá því síðast þegar kreppustjórn framsóknar og krata var við völd eins og nú er.
    Ég vil, virðulegi forseti, benda á að ríkisstjórnin ætlar að hækka hámark eignarskatta úr 1,45% í 2,95% þegar eignir einstaklinga eru 7 millj. kr. eða meira. Auðvitað er þetta eignarupptaka. Og það sem er raunar sorglegast af þessu er að þunginn af þessari nýju skattheimtu leggst á útgerðarmenn, fólk í fiskvinnslu sem hefur tekist að eignast verulegan hlut í sínum framleiðslutækjum. Þetta er þess vegna beinn skattur á sjávarútveginn í landinu fyrst og fremst.
    Það er eðlilegt að hæstv. sjútvrh. kjósi að vera fjarverandi við þessar skattaumræður þó að hann hafi gaman af því að tala um að það eigi að leggja skatta á Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Nú er komið að því að ræða um hagsmunamál sjávarútvegsins og þá er hann í felum. Þá vill hann ekki segja neitt. Þá er hann annars staðar. Þá eru sumir hvergi. En fyrir utan hvernig þessi skattheimta leggst með þessum ofurþunga á sjávarútvegsfyrirtækin og iðnfyrirtækin í landinu sem rekin eru af einstaklingum leggst þetta á fjölda einstaklinga sem búa í skuldlausum íbúðarhúsum og afleiðingin af þessari þungu skattheimtu getur ekki orðið önnur en sú að fólkið verður að selja eignir sínar til að standa undir þeim, eignir sem það hefur kannski lagt ævistarf sitt í að eignast, lagfæra, prýða og búa vel um, halda við. Nú á að hrifsa þessar eignir frá því fólki, ekkjum, einhleypum mönnum, hjónum sem eru hætt að hafa tekjur nema ellilífeyri. Þetta fólk á ekki lengur að geta búið í sínum gömlu híbýlum vegna þess að skattlagningarsvipa fjmrn. dynur á þeim, hvín á þeim.
    Fyrrv. fjmrh. sagði að Sjálfstfl. hefði stungið rýting í bak sér þegar við vildum lækka nauðþurftir landsmanna um leið og við töldum nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að rétta við atvinnulífið í landinu. Ég segi: Eftir þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar er bak hinna lægst launuðu, hinna sem minnst mega sín, blóði drifið eftir svipuhögg skattheimtumanna.
    Virðulegi forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. leggur það til með mikilli sannfæringu að frv. verði fellt.