Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð inn í þessa umræðu. Hér er á ferðinni enn eitt skattahækkunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar, enn ein staðfesting á því að nú situr að völdum ríkisstjórn skattheimtu og forsjárhyggju. Það er ástæða til að undirstrika að ríkisstjórn sem telur sig vera sjálfkjörinn málsvara láglaunafólksins í landinu, verkafólksins, þeirra sem þurfa mest að erfiða fyrir nauðþurftatekjum, lætur sig ekki muna um og gerir það kinnroðalaust að senda slíkar kveðjur til íslensku þjóðarinnar sem þetta frv. felur í sér. Það felur í sér verulega þyngingu skattbyrðar allra hópa gjaldenda miðað við núgildandi skattalög. Samkvæmt breytingum á skattareglum fyrirtækja í frv. eru þær íþyngjandi og órökréttar. Eignarskattar einstaklinga munu hækka gríðarlega þó að frv. hafi verið breytt nokkuð til lækkunar. Enn er íþyngingin allt, allt of mikil.
    Það talaði við mig ung kona í gær. Hún sagði mér frá því að þau hjónin hefðu barist fyrir því að losna við sínar skuldir og nú hefði þeim tekist að eignast íbúðina sína skuldlausa. En þá uppgötvar hún að nú er verið að endurskatta þessar eignir sem þau hafa eignast, hjónin, af sínum launatekjum í gegnum árin svo að nú þurfa þau að borga á hverjum mánuði álíka mikið og þeir sem eru að greiða skuldir af íbúðum sem þeir hafa enn ekki eignast. Það er sem sagt ekki hvetjandi fyrir fólk nú að eiga skuldlausar eignir heldur þvert á móti. Það er stefna okkar sjálfstæðismanna að afmá tekjuskatt af almennum launatekjum, jafnframt að persónuafsláttur sé að fullu millifæranlegur. Það er einnig okkar stefna að auka ekki skattlagningu eigna frá því sem verið hefur heldur þvert á móti að létta á eignarskattsbyrði einstaklinga með því að tvöfalda núgildandi fríeignarmörk.
    Hér er á ferðinni enn ein köld jólakveðja ríkisstjórnarinnar til íslensku þjóðarinnar í formi aukinnar skattheimtu. Við sjálfstæðismenn leggjum til að þetta frv. verði fellt.