Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég er svo sem engan að ásaka öðrum fremur þó að við ruglumst eitthvað í ríminu þegar tillögur koma mjög seint og málið er flókið eins og það er upp sett og þess vegna hafa menn kannski ekki gert sér grein fyrir hvað hér er um að ræða, en mér skilst að það sem í þessari tillögu felst, sem meiri hl. flytur, sé að ekki sé skylt núna að gjaldfæra t.d. hamra, naglbíta og smáverkfæri. Með þessu frv. hefur það allt saman verið sett á eignahlið fyrirtækja. Nú má taka naglbíta, hamra og kannski jafnvel kúbein og slíkt eins og þeir nota í Þjóðhagsstofnun þegar þeir eru að stjórna efnahagslífinu og eignfæra það en ekki gjaldfæra. En við skulum halda að það sé betra að fyrirtækin þurfi ekki að tíunda hvern hefil og þess vegna segi ég já við þessu.