Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Við 3. umr. vildi ég leyfa mér fyrir hönd meiri hl. fjh.- og viðskn. að leggja fram tvær skriflegar breytingartillögur við frv.
    Fyrri tillagan er við 5. gr. um að greinin orðist svo sem nú segir:
    ,,Í stað 2. málsl. 4. mgr. 53. gr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo:
    Skuldir og inneignir stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga, sbr. 1., 2. og 4. tölul. 2. gr., svo og skuldir og inneignir hluthafa í hlutafélögum og ógreidd hlutafjárloforð, teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan nema því aðeins að skuldir þessar og inneignir séu vaxtareiknaðar með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Skuldir og inneignir eignaraðila sameignarfélaga, sbr. 3. tölul. 2. gr., teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan.``
    Um þessa tillögu er það að segja --- takist mér að koma því rétt til skila --- að um það er að ræða að jafnræði sé milli félagaforma, þ.e. að sömu reglur gildi um samvinnufélög og sameignarfélög og gilt hafa um hlutafélög í þessu tilliti og í lögunum eins og þau voru, svo og að lán milli þeirra aðila er hér greinir, séu þau á sömu kjörum og vaxtareiknaðar með sama hætti og gilda hjá innlánsstofnunum á sínum tíma, eru í rauninni ekkert óeðlileg. Annars skal játað að á þeim skamma tíma sem gefist hefur til að fjalla um þetta mál má vera að aðrir séu betur að sér um nánari útskýringar á þessu. Hér er verið að jafna aðstöðu þeirra aðila sem þessi lög taka til.
    Í öðru lagi þá vil ég gera grein fyrir breytingartillögu við 9. gr. laganna þar sem fjallað er um sjómannafrádrátt, sem svo er kallaður, sem í lögunum, eins og þau eru nú, er 455 kr. á úthaldsdag. Tillaga okkar er að í stað 455 komi talan 492 og er þá tekið tillit til þeirrar hækkunar úr 2% í 2,3% sem orðið hefur á tekjuskattinum. Þessi breyting er til þess eins að sjómenn hafi sömu stöðu og aðrir og skattbyrði þeirra aukist ekki umfram byrði annarra þegna í þjóðfélaginu. Hér er í rauninni aðeins um leiðréttingu að ræða þannig að sjómenn verði jafnsettir og áður var að því er sjómannafrádráttinn varðar. Ég hygg að það hafi verið yfirsjón hjá okkur í nefndinni að hafa ekki komið auga á þetta en þetta er leiðrétt hér með. Um þessi tvö atriði er flutt skrifleg breytingartillaga, herra forseti.