Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég get ekki sagt að ég taki undir þau ummæli formanns fjh.- og viðskn. að fjh.- og viðskn. hafi orðið á í sambandi við sjómannaafsláttinn. Í athugasemdum við einstakar greinar frv. segir um 12. gr.: ,,Samkvæmt þessari grein hækkar sjómannaafsláttur úr 365 kr. í 455 kr. fyrir hvern lögskráðan dag. Er það í samræmi við áætlaða launa- og verðlagsþróun að undanförnu og á næsta ári.`` Það er náttúrlega ógjörningur fyrir fjh.- og viðskn. þegar hún hefur tæpa klukkustund til að fjalla um svona viðamikið frv. að . . . ( Gripið fram í: Tæpar tvær.) Tvær klukkustundir. Við fjölluðum um vörugjald á þeim sama fundi. ( Gripið fram í: Það var rétt.) Þannig að ógjörningur er auðvitað fyrir okkur að ganga úr skugga um það hvort upplýsingar sem gefnar eru í greinargerð séu réttar eða rangar. Báðar þingnefndir hafa sem aðstoðarmann fulltrúa frá Ríkisendurskoðun og það er hagdeild við fjmrn. Því eiga þingmenn ekki að þurfa að ganga úr skugga um að skýringar við einstakar lagagreinar séu tölulega réttar. Hér er einfaldlega um það að ræða að frv. er illa unnið, eins og raunar hefur komið fram á fleiri greinum. Ég verð samt að láta ánægju mína í ljósi yfir því að þessi skekkja í frv. skuli hafa verið upplýst af sjómannasamtökunum í tíma þannig að sjómenn haldi sínum rétti eins og til er ætlast.
    Ég verð líka að láta í ljós ánægju mína yfir því að það náðist fram að rýmka, þó lítið væri, fyrningarheimildir frá því sem til stóð. Að síðustu lýsi ég ánægju minni yfir því að 6. gr. frv. sem nú er orðin 5. gr. skuli breytt á þann veg að ætlast er til að hún taki jafnt til allra fyrirtækja burtséð frá rekstrarformi fyrirtækisins. Á hinn bóginn verð ég að játa að mér hefur ekki unnist tími til þess að fara ofan í efni greinarinnar eins og hún er hér á breytingartillögunni. Ég átta mig ekki alveg á hvernig ríkisskattstjóri muni túlka þessa grein og má vera að nauðsynlegt hefði verið að setja inn í hana einhverja skírskotun til þess að farið væri eftir almennum viðskiptaháttum því að vitaskuld geta átt sér stað viðskipti milli hlutafélaga þegar annað er hluthafi í hinu og átta ég mig ekki alveg á hvernig það kemur út. Það er auðvitað alltaf erfitt að festa á blað flóknar lagagreinar án þess að menn geti sofið á því og af þeim sökum treysti ég mér ekki til þess að vera meðflm. að þessari tillögu, enda höfum við sjálfstæðismenn satt að segja lítinn áhuga á því að setja fingrafar okkar á þennan lagabálk í heild sem eru mestu okurskattalög sem sett hafa verið í sögu lýðveldisins.
    Þó ber að fagna því sem náðst hefur fram. Ef í ljós kemur að eitthvað í frv. er vanhugsað, eins og þegar hefur komið í ljós um margt, er auðvitað sjálfsagt að reyna að leiðrétta það á næsta ári í von um að hæstv. fjmrh. kunni að meta það og vilji koma til móts við þá sem með ábendingarnar koma.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Það má segja að maður geti verið

stoltur af því að frv. skuli þó vera pínulítið skárra en í upphafi leit út fyrir að það yrði og ég hlýt að draga til baka brtt. mína eftir að þessi brtt. er fram komin.