Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu fyrr í dag og sl. nótt tel ég þau vinnubrögð sem við höfum leiðst út í að stunda þessa dagana mjög ámælisverð. Hér hafa menn orðið að skoða mikilvæg mál í miklum flýti og taka afstöðu til þeirra. Hef ég reynt að kynna mér þau mál eins vel og kostur hefur verið þessar síðustu klukkustundir. Ég verð þó að játa að oft líður mér eins og kennara sem hefur ekki lesið próf nemendanna mjög nákvæmlega, en gefur þeim samt einkunn til þess að skila úrlausnum á réttum degi.
    Ég lýsti því fyrr í dag að við kvennalistakonur gætum stutt ýmsar greinar í því tekjuskatts- og eignarskattsfrv. sem við nú greiðum atkvæði um en að tillögum okkar í hv. neðri deild felldum ákváðum við að flytja þær ekki aftur hér. Við munum ekki styðja frv. og ég segi nei.