Bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það varð að samkomulagi milli fulltrúa þingflokka að viðhafa þau vinnubrögð hér í hv. Alþingi að reyna að afgreiða fyrir jólahátíð þau frv. sem fyrst og fremst snerta tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári. Þegar síðan var rætt um það hvort þingheimur vildi frekar koma saman á milli jóla og nýárs til þess að afgreiða fjárlög eða gera það á fyrstu dögum hins nýja árs var það sameiginleg niðurstaða að þingheimur kaus að koma frekar til þeirra verka í fyrstu viku janúar og ljúka þeim þá. Sú ákvörðun að hafa hlé á störfum þingsins á milli jóla og nýárs en afgreiða fjárlög í fyrstu viku janúarmánaðar, á fyrstu dögum hins nýja árs, gerir það óhjákvæmilegt að við afgreiðum frv. til laga um báðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1989. Þótt ætlunin sé að ljúka fjárlagafrv. á allra fyrstu dögum hins nýja árs er engu að síður nauðsynlegt að frv. sé útbúið með þeim hætti sem hér er gert.
    Í 1. gr. frv. er ríkisstjórninni heimilað að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða til 31. janúar 1989. Ástæða þeirrar dagsetningar felst m.a. í því að laun eru greidd fyrir fram, mánuður í senn, og óhjákvæmilegt er að hafa þannig heimildina til þessa tíma þótt fjárlagafrv. verði búið að fá lagagildi löngu fyrir þá dagsetningu. Sama gildir varðandi 2. og 3. gr. frv., þar er að finna ákvæði sem nauðsynlegt er að hafa með þessum hætti strax á fyrstu dögum nýs árs. Hvað 4. gr. snertir er vísað þar til hugsanlegrar nauðsynlegrar lántöku vegna þeirra skulda sem ríkissjóður hefur stofnað til í Seðlabanka Íslands, bæði á yfirstandandi ári og einnig vegna greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1987. Nauðsynlegt er að hafa heimild fyrir allri þessari upphæð strax á fyrstu dögum nýs árs ef hagstæð skilyrði skapast til þess að leysa það vandamál með lántökum sem bjóðast á kjörum sem talin eru ákjósanleg.
    Hér er því fyrst og fremst um að ræða nauðsynleg formsatriði til þess að geta uppfyllt þá vinnuákvörðun þingsins að ljúka skattafrv. fyrir jól en afgreiða fjárlagafrumvarpið á fyrstu dögum hins nýja árs í stað þess að gera það milli jóla og nýárs. Þar sem þetta frv. er flutt í samræmi við sameiginlegt samkomulag allra þingflokka vænti ég þess að það fái skjóta og góða afgreiðslu hér í þinginu og mælist til þess, virðulegi forseti, að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.
    Afturköllun og upptaka tillagna.