Bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að gera athugasemd við þetta en vil nota tækifærið til þess að minna á það að yfirmenn fjármála hér á Íslandi gætu gjarnan komið þeim skilaboðum til sinna sérfræðinga að gefa einhverjar upplýsingar um það hvaða áhrif sala spariskírteina ríkissjóðs í mjög miklum mæli hefur á vaxtaþróunina í landinu gagnvart atvinnuvegunum. Ég sé ástæðu til þess að minna á þetta vegna þess að mér finnst einhvern veginn að það skorti á að þessi mál séu hugsuð frá sjónarhóli raunveruleikans. Raunveruleikinn er sá að spenna á lánsfjármarkaði á Íslandi er allt of mikil. Gegndarlaus sókn ríkisins á innlendan lánsfjármarkað er fyrst og fremst aðalvaldurinn að háum vöxtum á Íslandi. Einnig er, sbr. 4. gr., heimilt að taka lán erlendis upp á 6,5 milljarða. Gegndarlaust innstreymi erlends lánsfjár virkar sem bein samkeppni við fyrirtækin sem eru að framleiða gjaldeyri með því að selja vöru á erlendan markað. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn geri eitthvað í því að meta þau áhrif sem svona mikið innstreymi erlends lánsfjár hefur á íslenska atvinnuvegi, þannig að reynt verði að gera allt sem hægt er til að stemma stigu við slíku.
    Mér finnst vera ærin ástæða til að minna á þetta hér.