Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að fram kom í máli hæstv. ráðherra að vafist hefði fyrir færustu lögfræðingum að gera út um það hvaða sjóðir væru þess eðlis að unnt væri að skattleggja þá með sama hætti og aðrar lánastofnanir. Þetta er ansi athyglisverð yfirlýsing um að stjfrv., undirbúið af hæstv. fjmrh., hafi verið þess eðlis að það hafi ekki verið á færi færustu lögfræðinga að ráða fram úr efni þess að því er þetta atriði varðar.
    Það er hins vegar í samræmi við annan málatilbúnað hæstv. ríkisstjórnar að hún skuli --- og það hefur ekki vafist fyrir henni þó það hafi vafist fyrir færustu lögfræðingum --- taka þarna inn ýmsa þá sjóði sem ríkið leggur nú til meiri part síns fjármagns en þannig kom þetta frv. fram í upphafi í hv. efri deild, en hefur nú sem betur fer verið breytt. Þá var t.d. lagt til að Framleiðnisjóður ríkisins greiddi skatt af sínu fjármagni þannig að með því að auka útflutningsbótaféð í Framleiðnisjóðnum á fjárlögum hefði verið hægt að afla ríkissjóði heilmikilla tekna.
    Þannig var frv. þegar það kom fram, eins og það blasti við, en því hefur sem betur fer verið breytt og er það að sjálfsögðu til bóta. Sú samræming sem eftir stendur í frv., en þar er nú ekkert eftir annað en veðdeildir bankanna, er hins vegar til bóta að mínum dómi og eins og frv. er orðið er ástæðulaust að amast við því.