Afturköllun og upptaka tillagna
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Í gær kom hér til umfjöllunar og úrskurðar forseta hvort þingmanni, sem ekki væri flm. tillögu, væri heimilt að taka upp tillögu sem flm. hefði kallað aftur. Atvik voru þau að hv. 5. þm. Reykv. óskaði eftir að fá að gera að sínum þær tillögur sem hv. 11. þm. Reykn. kynni að kalla aftur við atkvæðagreiðslu í deildinni en hv. 11. þm. Reykn. hafði þá kallað aftur breytingartillögur við það frv. sem til afgreiðslu var. Lagði hv. 5. þm. Reykv. til við forseta að hann leitaði ráða hjá skrifstofustjóra þingsins ef forseti teldi vafa á um rétt hans til þess að gera að sínum tillögur sem kallaðar væru aftur.
    Um þetta spannst nokkur þingskapaumræða og komu þar fram ýmsar góðar ábendingar. Að höfðu samráði við skrifstofustjóra úrskurðaði forseti að slík upptaka tillögu annars þingmanns væri ekki heimil en benti á að hv. 5. þm. Reykv. hefði ekki glatað neinum rétti til að láta reyna á þessar tillögur þar sem málið væri að ganga til atkvæða við 2. umr. og hann gæti því tekið upp og flutt þær tillögur sem hér um ræddi við 3. umr. Á það sættist hv. 5. þm. Reykv. Jafnframt var upplýst við þingskapaumræðuna að ætlun hv. 11. þm. Reykn. væri einungis sú að kalla tillögu sína aftur til 3. umr.
    Undir lok þingskapaumræðunnar gat forseti þess, og reyndar hét deildinni því, að hann mundi skoða þetta mál nánar enda teldi hann það áhugavert og forvitnilegt. Í þeim orðum fólst vitaskuld viðurkenning á því að sá úrskurður, sem felldur hafði verið, væri e.t.v. ekki einhlítur og sjálfsagt væri að skoða hann nánar. Forseti gaf með öðrum orðum fyrirheit um slíka athugun og það fyrirheit er nú verið að efna.
    Að undangenginni nánari íhugun og með tilvísun í hefðir hér á Alþingi er úrskurður forseta þessi, þ.e. sá úrskurður sem hann mun fylgja framvegis:
    Sérhver þingmaður getur og hefur rétt til þess að gera tillögu, sem kölluð er aftur, að sinni hvenær sem til slíks dregur, hvort heldur er við atkvæðagreiðslu eða umræðu --- en með einni mikilvægri undantekningu: ef flm., eða 1. flm. ef því er að skipta, tekur fram að tillagan sé kölluð aftur til 3. umr. þá hefur þingmaður ekki slíkan rétt.
    Rökstuðningur forseta er þessi, og styðst hann þá við þá grundvallarreglu að aðalatriðið sé að stuðla að því að vilji þingsins eða deildarinnar fái að koma fram:
    1. Það má ekki hindra að til atkvæða komi tillaga sem aðrir en flm. kynnu að hafa flutt en létu ógert að flytja úr því að tillagan var þegar fram komin. Þetta þýðir að flm. tillögu hefur ekki slíkan einkarétt á tillögu að hann geti hindrað að hún komi til atkvæðagreiðslu, og þá um leið að aðrir þingmenn geta tekið upp og gert að sinni tillögu sem kölluð er aftur. Skýringin er einföld, nefnilega sú að annars kynnu þeir að hafa flutt sömu tillögu af því að þeir væru henni samþykkir, en eins og sakir standa töldu þeir það óþarft úr því að tillagan var fram komin.
    2. Frá þessari reglu gerir forseti eina mikilvæga undantekningu: ef 1. flm. tekur fram að hann kalli

tillöguna aftur til 3. umr. þá gildi ekki fyrri reglan. Orsökin fyrir þessari undantekningu er sú að ekki verða tekin frá flm. forráð yfir tillögu sem hann hefur flutt, reyndar haft frumkvæði að því að flytja ef að líkum lætur, svo framarlega sem ljóst er að tillagan komi til atkvæða síðar. Þá hefur flm. ekki gengið á rétt neins sem hugsanlega hefði flutt sams konar tillögu, og tillagan mun koma til atkvæða þótt síðar verði. Því er samkvæmt þessum úrskurði sú krafa gerð til 1. flm. tillögu að þegar hann kallar tillögu aftur láti hann í ljós hvort hann ætli henni að koma til atkvæðagreiðslu síðar.
    Þetta var ekki nægilega ljóst við upphaf þingskapaumræðunnar í gær, þótt það upplýstist meðan á umræðu stóð að flm. hafði einmitt í huga að láta tillögur sínar koma til atkvæða við 3. umr.
    Að því er varðar tilvísun í 41. gr. þingskapa, þar sem segir m.a. að frv. eða tillögur megi kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill, telur forseti rétt að túlka hér orðið ,,umræðu`` í víðum skilningi, þ.e. sem 1., 2. og 3. umr., sem í þeim skilningi felur einnig í sér atkvæðagreiðslu við hverja umræðu. Orðið ,,umræða`` hefur svo aðra merkingu og þrengri þegar forseti segir að umræðu sé lokið, þ.e. að ræðuhöldum sé lokið.
    Með þessari yfirlýsingu telur forseti sig hafa efnt það heit sem hann gaf í gær að hann mundi kveða upp nánari úrskurð í þessu máli ef hann teldi það rétt vera.