Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Við erum svo forsjál í fjh.- og viðskn. deildarinnar að við athuguðum þessa brtt. sem Ed. var að fjalla um þó að ekki væri búið að vísa málinu til okkar með formlegum hætti. Þessi brtt. fjallar um að ekki skuli greiða vörugjald af innlendri húsgagna- og innréttingaframleiðslu í tilteknum tollskrárnúmerum fyrr en frá og með 1. mars 1989, þ.e. tveggja mánaða aðlögunartími gefist fyrir innlenda húsgagna- og innréttingaframleiðslu.
    Þegar málið var til meðferðar í Nd. fjölluðum við einmitt um það hvort væri unnt að veita svona heimild og létum athuga það. Okkur var tjáð af sérfræðingum okkar að þetta væri brot á samkomulagi við EFTA og flokkaðist undir tollvernd en nú kemur í ljós að svo er ekki eftir því sem Ed. hlýtur að hafa haft upplýsingar um. Við teljum að þetta sé til bóta og gerum ekki athugasemdir við gerðir Ed.